Í Atvinnulífinu í gær og í dag er fjallað um gigg-hagkerfið og sjálfstætt starfandi fólk á Íslandi.
Vinna mikið á veturnar, ekkert á sumrin…
Rekstrarform giggara getur verið í gegnum einkahlutafélag (ehf.) sem fólk stofnar í kringum sig og verkefnin sín eða að fólk starfar sjálfstætt og stofnar virðisaukaskattsnúmer á sína eigin kennitölu.
Listamenn og aðrir hópar þekkja þetta form vinnu mjög vel og hafa bæði reynt kosti þess og galla lengi.
Flestir fasteignasalar, prófarkalesarar, hárgreiðslufólk og sjálfstæðir iðnaðarmenn, sem dæmi, hafa lengi nýtt sér þetta form vinnu lengi.
Á Íslandi hefur verið algengt að fólk sé að gigga meðfram því að vera í hlutastarfi eða jafnvel fullu starfi,“
segir Árelía.
Óháð rekstrarforminu segir Árelía helstu kostina við giggið vera að fólk hefur meira frelsi, sjálfstæði og getur betur hagað lífstíl sínum eftir því hvað hentar hverjum og einum.
„Unnið mikið á veturnar og ekkert á sumrin, unnið þrjá daga vikunnar eða eftir hádegi og svo framvegis.“
Að hennar mati mun giggarastörfum fjölga enn frekar því þetta form eykur sveigjanleika beggja aðila, bæði vinnuveitenda og starfsfólks.
Ekki öllum hentar þó að starfa sjálfsætt.
„Fólk þarf að hafa hugrekki, sköpunargáfu og vera tilbúið til þess að markaðssetja sjálft sig. Þetta finnst mörgum erfitt. Fólk þarf að sjá um að skipuleggja sig og tíma sinn, fjármagnsflæði yfir árið og einnig að fá og kaupa tækni og þjónustu eins og aðrir,“ segir Árelía og bætir við: „Fólk þarf að skipuleggja og sjá um að byggja upp það sem við köllum færnimöppu í stað ferilsskrár, sjá um að viðhalda atvinnuhæfni sinni með menntun og þjálfun. Það þarf að hugsa mörg skref fram í tímann og vera virkt í að koma sér á framfæri maður á mann.“
Þá segir hún giggara vinna með mismunandi mörgum. Sumir vinna með einu til tveimur fyrirtækjum en aðrir eru með marga í einu.

Völundarhús Tækifæranna
Árelía telur Covid hafa flýtt fyrir þeirri þróun að giggarastörfum fjölgar hratt.
„Heimsfaraldurinn hefur flýtt fyrir þróun, á því að við getum unnið hvar sem er, hvenær sem er og með hverjum sem er eins og við Herdís Pála Pálsdóttir, mannauðsstjóri Deloitte og meðhöfundur köllum hið nýja markaðstorg þekkingar og reynslu í bók okkar: Völundarhús Tækifæranna sem er að koma út um þessar mundir. Tæknilegar lausnir urðu betri og útbreiddari en áður og flest allir hafa lært að vinna fjarri vinnustaðnum,“ segir Árelía.
Covid er þó ekki eina alheimskrísan sem flýtt hefur fyrir fjölgun giggstarfa.
„Í kjölfarið á fjármálahruninu um allan heim 2008 urðu atvinnurekendur hikandi við að ráða fólk á hefðbundnum starfssamningi sem launþega. Það skapaði umhverfið fyrir að þekkingarstarfsmenn fór að ráða sig meira í gigg, það er tímabundin skilgreind verkefni.“
Árelía segir netvanga (e. platform) lengi hafa tíðkast erlendis þar sem fólk ræður sig tímabundið en þau eru oftar fyrir lálaunastörf.
Þetta gerði það að verkum að lengi leit fólk á giggin sem tímabundna lausn, bæði stjórnendur og þekkingarstarfsmenn.
Niðurstaðan varð hins vegar sú að báðum aðilum líkaði niðurstaðan: Giggið var að henta vel og því fór giggstörfum að fjölga.
Atvinnurekendur geta ekkert án fólks

„Samkvæmt rannsóknum okkar þá er munur á því hvort að um þekkingarstarfsmenn er að ræða eða aðra. Þegar um þekkingarstarfsmenn er að ræða þá eru kröfurnar oft komnar frá þeim sjálfum. Hins vegar eru stórfyrirtæki eins og Amazon þekkt fyrir að ráða og reka fólk eftir hentugleik, þaðan er nafnið „hark-hagkerfi“ komið“ segir Árelía en bætir við: „Auðvitað er mikilvægt fyrir stéttafélög að vera meðvituð um að standa vörð um réttindi og skyldur launþega og allra starfsmanna og reyna að gæta þess að hin nýi hópur giggara lendi ekki á milli stafns og bryggju þegar erfitt er, eins og undanfarin tvö ár.“
Nú þegar giggurum fer fjölgandi, segir Árelía tilefni til að benda atvinnurekendum á að vera sérstaklega vakandi yfir því hvernig samband þeir byggja upp með mismunandi hópum starfsfólks á samningum.
Ef ekki er fólk er reksturinn ekki í lagi.
Þess vegna skiptir það atvinnurekendur ekki síst máli að huga að sambandi sínu við mismunandi hópa sem að fyrirtækjarekstri þeirra koma, launamenn, giggara og þá sem eru á öðrum samningum,“
segir Árelía og bætir við: „Sá galli sem þeir sem tóku þátt í rannsókn okkar nefndu helst var að vera einn eða að tilheyra ekki starfshópi. Þetta þurfa stjórnendur að hafa í huga.“