Skoðun

Ég á mér draum

Þórunn Sif Böðvarsdóttir skrifar

Ég á mér draum um að kennarastarfið hljóti þá virðingu sem það á skilið. Virðingu frá viðsemjendum okkar sem segja „nei” við fullkomlega réttmætum kröfum okkar um leiðréttingu á launum miðað við viðmiðunarstéttir. 

Um að við njótum réttlætis og að 5 ára gömul loforð um leiðréttingu launa verði efnd, loforð sem gefin voru fyrir ýmis réttindi sem við höfum látið af hendi. Um að kennsla og menntun verði samfélagsmál þar sem ríkið leggst á sveif með sveitarfélögum til að leiðrétta þá skekkju sem er í launaútreikningi kennara hjá sveitarfélögunum. 

Um að veitt verði nægilegt fé í „skóla án aðgreiningar” svo hann geti starfað samkvæmt hugmyndum stefnunnar um „skóla fyrir alla”. Um að nemendur fái þau úrræði og aðstoð sem þeim ber. Um að kennarastarfið verði samkeppnisfært og aðlaðandi fyrir nýja kennara. 

Um að aldrei verði samið um menntastefnur og breytingar í menntamálum án aðkomu sérfræðinga í kennslu, þ.e.a.s. kennara. Um að Kennarasamband Íslands sé með sterka forystu þar sem gætt er að því að raddir grasrótarinnar fái hljómgrunn.

Um að kennarar fái aðgang að handleiðslu og öðrum úrræðum sem kynnu að koma í veg fyrir kulnun í starfi. Um að samtal á milli skólastiga verði markvisst, uppbyggilegt og styrkjandi. Um að kennarar á öllum stigum sameinist í stolti yfir því mikilvæga og skapandi starfi sem þeir eru að vinna.

Það er alls engin tilviljun að greinarhöfundi skuli vera hugleikin orð mannréttindafrömuðarins Martin Luther King. Er ekki kominn tími á mannréttindasáttmála við kennara?

Höfundur er í framboði til varaformanns Kennarasambands Íslands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.