Skoðun

Gefum um­hverfis­vænni jóla­gjafir

Ingrid Kuhlman skrifar

Jólin eru yfirleitt mikil neysluhátíð. Við straujum greiðslukortin eins og enginn sé morgundagurinn og kaupum hluti sem við þörfnumst ekki og enda inni í geymslu eða jafnvel á ruslahaugunum. Á degi einhleypra, svörtum föstudegi og stafrænum mánudegi setja kaupglaðar sálir met í að spreða. Ofangreindar verslunarhefðir hafa fest sig í sessi hér á landi og eru líklegar komnar til að vera.

Afleiðingin af þessari kauphátíð er ekki aðeins að híbýli okkar, barnaherbergi, stofur og fataskápar fyllast af hlutum sem eiga sér stuttan lífdaga. Það sem er enn verra er að með þessu göngum við á náttúruauðlindir og lífsgæði okkar sjálfra, barnanna okkar og afkomenda þeirra. Lífsstíll okkar er langt frá því að vera sjálfbær. Til að viðhalda því neyslustigi sem er ríkjandi í dag þyrftum við marga hnetti á borð við jörðina.

Hér fyrir neðan eru nokkrar hugmyndir að umhverfisvænni jólagjöfum:

  • Heimagerðar jólagjafir. Hægt er t.d. að föndra, gera skartgrip, prjóna peysu, sjal eða vettlinga, gera jólakonfekt, sörur eða sultu, gefa þurrkaða villisveppi eða annað góðgæti, búa til jólakrans, gera dagatal með myndum af börnunum eða skreyta kerti. Hægt er að fylla krukku af jurtatei, sultuðum rauðlauk, ristuðum kanilmöndlum, trönuberjahlaupi, þurrkuðum jurtum eða karamellupoppi.
  • Gjafabréf á eigin framlög, eins og t.d. að halda matarboð að indverskum sið, bjóða nýbökuðum foreldrum pössun eina kvöldstund, slá garðinn hjá ömmu og afa, samveruhelgi með fjölskyldunni uppi í bústað, lautarferð, bjóðast til að kenna fólki að mála, taka ljósmyndir eða dansa salsa.
  • Upplifun og samvera, eins og t.d. að fara saman í leikhús, á uppistand eða á tónleika, út að borða eða á kaffihús, í hestaferð, nudd eða andlitsbað, keilu, golfhermi, jógatíma, ísklifur, gönguferð, á námskeið, o.fl.
  • Áskriftir, t.d.áskrift að tímariti, streymisveitu, hljóðbókum eða tónlistarveitu.
  • Gjöf til góðra málefna, eins og t.d. að styrkja börn í fátækum löndum til náms, gefa bóluefni, neyðarpakka, vatn, teppi, moskítónet, mat o.fl.
  • Endingargóðar jólagjafir, eins og t.d.leikföng úr timbri, bækur, ljósmynd á striga, margnota innkaupapoki, falleg planta, margnota kaffimál fyrir kaffiunnanda, vatnsbrúsi eða vönduð flík úr náttúrulegum efnum.
  • Umhverfisvottaðar gjafir. Kosturinn viðumhverfisvottaðar vörur, eins og t.d. Svansmerktar, er að þess er gætt í framleiðsluferlinu að þær hafi sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið.
  • Notaðar gjafir. Á nytjamörkuðum og í Barnaloppunni, sem sel­ur vel með farn­ar, end­ur­nýtt­ar barna­vör­ur, má finna fallegar gjafir í jólapakkann.

Með þessum einföldu breytingum á neysluvenjum má draga úr vistsporinu svo um munar.

Höfundur er áhugamaður um sjálfbærni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.