Viðskipti erlent

Musk segir SpaceX í krísu og gjaldþrot mögulegt

Samúel Karl Ólason skrifar
Elon Musk, stofnandi of forstjóri SpaceX.
Elon Musk, stofnandi of forstjóri SpaceX. AP/Susan Walsh

Elon Musk, stofnandi og framkvæmdastjóri SpaceX, segir fyrirtækið í krísu vegna hægrar framleiðslu á eldflaugarhreyflum og að gjaldþrot sé mögulegt. Fyrirtækið þurfi nauðsynlega að auka framleiðslu.

Í tölvupósti sem Musk sendi nýverið á starfsmenn SpaceX sagði hann framleiðsluvanda varðandi Raptor-eldflaugarhreyflana gífurlega alvarlegan fyrir fyrirtækið.

Raptor-hreyflarnir eiga að knýja Starship-geimskipið sem starfsmenn SpaceX  hafa verið að þróa í Texas. Geimskipið á að flytja menn og birgðir til tunglsins og lengra út í sólkerfið.

Starship á einnig að nota til að koma annarrar kynslóðar Starlink-netgervihnöttum á braut um jörðu, þar sem Falcon-eldflaugarnar duga ekki til þess. Vegna þess að nýju gervihnettirnir eru mun stærri en þeir eldri.

Space Explored kom höndum yfir póst Musks en í honum sagði hann að vandamálið væri mun stærra en það var fyrir nokkrum vikum. Póstinn sendi hann fyrir þakkagjörðarhátíðina um síðustu helgi og biðlaði  til starfsmanna sinna um að hætta við frí sín og mæta til vinnu.

Það væri nauðsynlegt vegna þessa hörmulega ástands.

Falcon 9 eldflaug skotið á loft frá Flórída fyrr í nóvember. Um borð voru Starlink-gervihnettir.SpaceX

Forsvarsmenn SpaceX vilja framleiða tvo Raptor-hreyfla á viku. Það sé nauðsynlegt svo hægt sé að fljúga nægilega mörgum Starship-geimförum þegar þróun þeirra lýkur. Sérstaklega varðandi Starlink-gervihnettina en Musk sagði aðra kynslóð þeirra mun hagkvæmari fjárhagslega séð fyrir fyrirtækið.

Space Explorer segir að um tíma hafi SpaceX verið að tapa nærri þúsund dölum á hverjum notanda Starlink-gervihnattanna. Tekist hafi að draga úr kostnaði en þrátt fyrir það sé kostnaðurinn við uppsetningu gervihnattanna gífurlega mikill og mun það reynast baggi á rekstri SpaceX.

Í lok tölvupóstsins sagði Musk að fyrirtækið standi frammi fyrir raunverulegri hættu á gjaldþroti ef ekki tekst að skjóta minnst einu Starship-geimfari út í geim á tveggja vikna fresti á næsta ári.

Musk hefur byggt SpaceX upp á grunni þess að með endurnýtanlegum eldflaugum er hægt að draga verulega úr kostnaði við geimskot. Fyrirtækið var nýverið metið á hundrað milljarða dala og greiningaraðilar telja mögulegt að SpaceX hafi burði til að gera Musk að fyrsta billjónamæringi heimsins, í dölum talið.

Sjá einnig: Ekki Tesla heldur SpaceX sem muni gera Musk að billjónamæringi

Starship á að vera grunnurinn að framtíð SpaceX. Með því að þróa fullkomlega endurnýtanlega eldflaug og geimfar gæti fyrirtækið dregið enn frekar úr kostnaði við geimskot og framkvæmt þau mun oftar en samkeppnisaðilar.

Musk hefur áður sagt að Starship eigi í raun að vera eins og flugvélar. Hægt verði að stíga um borð í geimfar hér á Íslandi og lenda svo í Japan skömmu seinna. Þar eigi einungis að þurfa að dæla eldsneyti á geimfarið og fljúga því eitthvað annað.

Til stendur að skjóta fyrsta Starship-geimfarinu út í geim á næsta ári. Sú frumgerð kallast SN20 og er ekki búist við því að hún komist óskemmd í gegnum tilraunaskotið.

Musk sagði á Twitter í kvöld að gjaldþrot væri „ólíklegt, en ekki ómögulegt.“


Tengdar fréttir

Selur hlutabréf til að borga tvö þúsund milljarða í skatta

Elon Musk, auðugasti maður heims, spurði nýverið tugi milljóna fylgjendur sína á Twitter að því hvort hann ætti að selja tíu prósent hlutabréfa sinna í Tesla, bílafyrirtækinu sem hann stofnaði. Musk sagðist ætla að una ákvörðun Twitter, en 58 prósent þeirra sem tóku þátt sögðu honum að selja.

Kanna leiðir til að draga úr áhrifum geimferða

Fjórum geimförum verður skotið út í geim á sunnudagsmorgun. Þau munu verja næstu mánuðum við störf og rannsóknir í Alþjóðlegu geimstöðinni. Geimförunum verður skotið út í geim um borð í Crew Dragon geimfari SpaceX.

NASA horfir lengra út í geim

Forsvarsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) hafa ákveðið að gera breytingar á starfseminni, sem eiga að stjórna áherslum opinberra geimferða næstu áratugina. Markmiðið er að leggja meiri áherslu á lengri geimferðir og þróun tækni sem þarf til þeirra.

Ruslahaugur á sporbraut: Hættan á stórslysi eykst sífellt

Spútnik, fyrsta gervihnetti jarðarbúa, var skotið á loft frá Sovétríkjunum árið 1957. Síðan þá hefur þúsundum gervihnatta og annarra muna verið skotið á braut um jörðu. Mikil óreiða ríkir á sporbraut og gífurlegt magn svokallaðs geimrusls hefur myndast þar.

SpaceX lenti nýjustu frumgerðinni

Starfsmenn fyrirtækisins SpaceX skutu í kvöld enn einni frumgerð geimfarsins Starship á loft frá Texas. Þá tókst þeim að lenda þessari stærðarinnar frumgerð í heilu lagi. Fyrirtækið gerði nýverið samning við Geimvísindastofnun Bandaríkjanna um að flytja geimfara til tunglsins með Starship.

Margir áfangar í geimskoti SpaceX og NASA

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) og SpaceX munu á fimmtudaginn skjóta fjórum geimförum af stað til alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Verður það í fyrsta sinn sem eldflaug og geimfar eru endurnýtt til að koma geimförum út í geim.

NASA semur við SpaceX um að lenda geimförum aftur á tunglinu

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur samið við fyrirtækið SpaceX um þróun á lendingarfari sem notað verður til að lenda mönnum á tunglinu. Starfsmenn fyrirtækisins, sem er í eigu auðjöfursins Elon Musk, munu þróa sérstaka tegund Starship geimskipsins og nota það til að lenda tveimur bandarískum geimförum á tunglinu á næstu árum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.