Körfubolti

Mið­herji Celtics breytir um nafn og fær banda­rískan ríkis­borgara­rétt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Enes Kanter í sigurleik Boston Celtics á móti Toronto Raptors í NBA deildinni í nótt.
Enes Kanter í sigurleik Boston Celtics á móti Toronto Raptors í NBA deildinni í nótt. AP/Chris Young

Þetta er stór dagur fyrir Enes Kanter, miðherja NBA-liðsins Boston Celtics. Í dag fær hann bandarískan ríkisborgararétt en það er þó annað sem breytist líka.

Kappinn ætlar nefnilega líka að breyta löglega nafninu sínu í Enes Kanter Freedom. Kanter verður hér seinna skírnarnafnið hans en ættarnafnið verður hér eftir Freedom.

Liðsfélagar hans hafa verið að kalla hann Freedom vegna baráttu hans fyrir mannréttindum út í heimi og hann fór bara alla leið og lét breyta nafninu sínu í gælunafnið. Freedom birtist væntanlega aftan á treyju hans fljótlega.

Nafnabreytingin minnir aðeins á það þegar NBA stjarnan Ron Artest breytti nafni sínu í Metta World Peace árið 2011 en hann breytti því síðan í Metta Sandiford-Artest árið 2020.

Kanter er fæddur og uppalinn í Tyrklandi en náði ríkisborgaraprófinu í Bandaríkjunum á dögunum. Hann hefur verið mjög gagnrýninni á stjórnvöld í Tyrklandi og hefur einnig nýtt frægð sína og samfélagsmiðla til að gagnrýna framgöngu kínversku þjóðarinnar gagnvart Uyghur samfélaginu.

Hann er heldur ekki mikill aðdáandi hvernig Kína kemur fram við við Tíbet, Tævan og Hong Kong. Nú síðast kallaði hann eftir því að þjóðir heims myndu skrópa á Ólympíuleikana í Peking í febrúar.

Kanter hefur líka fengið hörð viðbrögð frá Kína og þetta hefur bitnað á liði hans Boston Celtics. Það er sem dæmi bannað að sýna leiki Celtics liðsins í kínversku sjónvarpi.

Enes Kanter á að baki ellefu ár í NBA-deildinni og hefur spilað með Boston liðinu frá 2018. Í 722 deilarleikjum á ferlinum er hann með 11,4 stig og 7,9 fráköst að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×