Handbolti

Annarri umferð Olís deildar karla lýkur loksins í kvöld sextíu dögum of seint

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumenn komust aftur á sigurbraut í síðasta leik.
Stjörnumenn komust aftur á sigurbraut í síðasta leik. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan og ÍBV spila í kvöld lokaleikinn í annarri umferð Olís deildar karla í handbolta sem er svo sem ekkert sérstakt fréttaefni nema að níundu umferð deildarinnar lauk á mánudagskvöldið.

Önnur umferð Olís deildar karla átti að fara fram 22. til 24. september síðastliðinn en fresta þurfti tveimur leikjum af sex.

Leik Vals og HK var frestað til 12. október vegna þátttöku Valsmanna í Evrópukeppnum en fresta þurfti leik Stjörnunnar og ÍBV vegna veðurs.

Leikurinn í Garðabænum átti að vera sá fyrsti sem fór fram í annarri umferðinni 22. september en fer nú fram 24. nóvember.

Eftir leikinn verða Stjarnan og ÍBV búin að spila jafnmarga leiki og lið Vals og FH sem eru nú fyrir ofan þau í töflunni. Topplið Hauka er eina liðið í deildinni sem hefur spilað tíu leiki.

ÍBV og Stjarnan eru í jöfn í fjórða og fimmta sæti deildarinnar með tólf stig en Eyjamenn eru með fjórum mörkum betri markatölu. Liðið sem vinnur leikinn kemst upp að hlið Valsmanna í annað sæti deildarinnar.

Stjörnumenn geta tekið annað sætið af Val, þökk sé sigurleik þeirra í innbyrðis leik liðanna en ÍBV getur það ekki þar sem liðið tapaði á móti Val í október.

Leikur Stjörnunnar og ÍBV fer fram í TM Höllinni í Mýrinni og hefst klukkan 18.00.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.