Tónlist

Evu Cassidy dreymir um að feta í fótspor frænku sinnar

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Eva Cassidy er fimmtán ára gömul og á ekki langt að sækja sönghæfileikana.
Eva Cassidy er fimmtán ára gömul og á ekki langt að sækja sönghæfileikana. Facebook

Eva Cassidy syngur í kirkjukór og dreymir hana um að taka þátt í Vælinu, söngvakeppni Verzlunarskólans. Það er þó ekki sú Eva Cassidy sem okkur flestum er kunnug, heldur fimmtán ára gömul frænka hennar og nafna sem á ekki langt að sækja sönghæfileikana.

Eva heitir fullu nafni Eva Katrín Daníelsdóttir Cassidy og er hún bróðurdóttir söngkonunnar Evu Cassidy sem lést árið 1996 eftir baráttu við krabbamein. Eva er fædd árið 2006 og hitti frænku sína því aldrei. Hún hlustar þó á tónlistina hennar og hefur horft á heimildarmynd um líf hennar.

„Mér finnst hún algjörlega frábær söngkona. Ég vildi að ég hefði hitt hana,“ segir Eva sem hefur lagt sönginn fyrir sig eins og frænka sín.

Eva var þekktust fyrir lög á borð við Songbird, Fields of Gold og Autumn Leaves. Hér að neðan má hlusta á flutning hennar á laginu Somewhere Over the Rainbow.

Var of feimin til þess að syngja

„Ég er búin að vera að syngja síðan ég var lítil. Ég var alltaf að syngja með Frozen og alls konar. Síðan byrjaði ég í píanónámi í Tónsmiðju Suðurlands. Fyrst þorði ég alls ekki að syngja en síðan byrjaði ég bara og hef elskað það síðan.“

Faðir Evu er fiðluleikarinn Dan Cassidy. Hann hafði lengi reynt að ná dóttur sinni inn í hljóðver að taka upp tónlist.

„Ég var bara fyrst ótrúlega feimin við hann því hann er náttúrlega tónlistarmaður líka, þannig ég var hrædd um það hvað honum myndi finnast.“

Eva virðist hins vegar hafa sigrast á feimninni því fyrr á árinu tók hún upp lagið New York State of Mind og þar má heyra að hún gefur frænku sinni lítið eftir. Það er Birkir Hrafn sem spilar undir.

Dreymir um að taka þátt í Vælinu

Sjálf spilar Eva á píanó og er að taka sín fyrstu skref í lagasmíðum.

„Mér finnst mjög auðvelt að semja texta og ég er búin að vera skrifa mikið af af textum undanfarið. En það er laglínan eða hljómagangurinn sem ég á erfitt með, því ég er ekki með grunninn í hljómfræði. En ég ætla að fara læra hann bráðum og mig langar mjög mikið til að fara byrja semja.“

Eva segir það ekki hafa haft mikil áhrif á sig að bera sama nafn og frænka sín, þar sem fæstir jafnaldrar hennar kannist við hana. Hún hafi hins vegar lent í því oftar en einu sinni að eldra fólki finnist skyldleikinn merkilegur.

Eva er á lokaári í grunnskóla og er stefnan tekin á Verzlunarskóla Íslands en þar er músíkin helsta aðdráttaraflið.

„Þar er stór söngvakeppni sem heitir Vælið og mig langar rosalega mikið til að taka þátt í henni og fara að semja lög og vonandi gefa þau út.“

Eva Cassidy var gestur í Bítinu á Bylgjunni en hér að neðan má hlusta á viðtalið í heild sinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.