Leikjavísir

Battlefield 2042: Ókláraður og á köflum óspilandi

Samúel Karl Ólason skrifar
bf-2042-blog-image-caspianborder.adapt.crop16x9.818p
DICE

Battlefield 2042 hefur valdið mér miklum vonbrigðum og hefur að mestu verið nánast óspilanlegur. Leikurinn er langt frá því að vera tilbúinn en hann hefur sína kosti og gæti jafnvel talist mjög efnilegur. Það vantar þó töluvert upp á enn sem komið er.

Eftir að ég fékk aðgang að Battlefield 2042 þann 12. nóvember, hef ég varið mun meiri tíma í að spila Skyrim, sem er tíu ára gamall leikur, og GTA þríleikinn, sem eru tuttugu til sautján ára gamlir leikir.

Ástæðan er einföld. Í flest öll þau skipti sem ég hef reynt að spila Battlefield hefur það verið ógerlegt vegna galla, vandræða við tengingu og lélegra vefþjóna. Ofan á það hef ég reglulega dottið út úr leiknum. Ég hef verið að spila leikinn í PC en netið segir mér að vandræðin hafa verið minni í leikjatölvum.

Leikurinn kom formlega út 19. nóvember og hann hefur skánað síðan þá en ekki nóg.

BF2042 gerist í stuttu máli sagt í heimi þar sem meðal annars veðurfarsbreytingar hafa leikið heiminn verulega grátt og stór hluti íbúa jarðarinnar hefur þurft að flýja heimili sín. Ríki víða um heim hafa fallið og sífellt stækkandi hópur ríkislausra (No-Pats) verður til. Samhliða því eykst mjög svo spenna milli Bandaríkjanna og Rússlands og virðist stefna í stríð.

Svo hefst auðvitað stríð enda snýst leikurinn um það.

BF2042 hefur fengið ákveðna útreið á Steam og er orðinn einn af þeim tíu verstu leikjum Steam, miðað við dóma tuga þúsunda notenda. Samhliða því er hann þó í öðru sæti yfir þá leiki sem eru mest spilaðir og er það til marks um að hann er ekki allslæmur.

Það virðist nefnilega vera fínn leikur þarna á bakvið alla gallana og vandræðin.

Stærri og meiri 

BF2042 er að nokkru leyti stærri en forverar sínir.

DICE

Hingað til hafa 64 spilarar geta barist sína á milli í Battlefield-leikjum. Aðrir leikir eins og Call of Duty Warzone bjóða allt að 150 spilurum að berjast og Dice ákvað að auka spilarafjöldann í 128. Á stærstu kortum BF2042 geta tvö 64 manna lið barist um yfirráð og þær orrustur geta verið sérstaklega skemmtilegar.

TIl að þetta virki eru borðin orðin mjög stór og það getur tekið tíma að komast á milli átakasvæða sem er ákveðinn mínus en það er oftar en ekki hægt að láta senda jeppa eða annars konar faratæki til manns.

Hér má sjá smá stuttmynd um sögu BF2042.

Mín fyrstu viðbrögð við Battlefield 2042 voru að þetta væri leikur gerður fyrir drullusokka sem spila ekki Battlefield. Það voru gerðar haugur af breytingum sem ég bókstaflega skil ekkert í en þar að auki eru breytingar sem ég veit nákvæmlega til hvers þær eru. Þær eru til að græða peninga, selja okkur föt á karla og nýja liti á vopn.

Þessi skoðun mín hefur reyndar mildast aðeins, samhliða því að ég hef getað spilað meira.

Stigataflan horfin

Nú getur maður ekki lengur séð stigatöflu yfir alla spilara hvers borðs og þess í stað getur maður bara séð meðlimi eigin sveitar. Öll 64 spilara lið BF2042 eru skipuð sextán fjögurra manna sveitum. Ég tel mig vita að stigatöflunni hafi verið breytt til að draga úr óreiðunni og gera spilara líklegri til að fylgja meðlimum sveita sinna eftir og reyna saman að ná markmiðum leiksins í stað þess að keppast um að skjóta sem flesta óvini.

Þessa ákvörðun skil ég en hún fer samt smá í taugarnar á mér. Sérstaklega með tilliti til þess að það virðist ekki vera hægt að tala við sveitarmeðlimi sína.

DICE

Fórnuðu einspilun fyrir eitthvað, kannski

DICE lýsti því yfir að engin einspilun yrði í BF2042, svo fleiri starfsmenn gætu einbeitt sér að því að bæta fjölspilun leiksins. Eitthvað hlýtur þetta fólk að hafa verið að sluksa í vinnunni. Því framboðið í BF2042 er ekki upp á marga fiska.

Það er hægt að spila Conquest, þar sem 128 spilarar berjast um að halda sérstaklega völdum svæðum, og Breakthrough, þar sem annað liðið þarf að sækja gegn hinu og reka þá aftar og aftar í borðinu.

Svo er Hazard Zone, sem er nokkurs konar Battlefield-Battle Royale, eins ömurleg útskýring og það er. Þar spila fjögurra manna lið gegn öðrum liðum og tölvukörlum um að ná diskadrifum úr gervihnöttum og komast í burtu, án þess að vera skotnir.

Þetta virðist virka vel en þeir sem byrja snemma og gengur vel ná miklu forskoti á aðra spilara því þeir hafa halað inn fleiri stigum og geta notað betri vopn og búnað en nýir spilarar. Takist sveitinni að komast undan fær hún fleiri stig til að kaupa betri búnað en þó sveitin sé þurrkuð út fær hún þau stig sem búið var að safna. Þess vegna er í raun lítið undir í Hazard Zone.

Það eru einungis 22 vopn í grunn-leiknum og nokkur farartæki, þó bæði vopnin og farartækin séu mun fleiri í hluta leiksins sem kallast Portal. Í stuttu máli sagt, þá virkar BF2042 rýr. Battlefield 5 var það reyndar svo sem líka og DICE bætti töluvert við hann eftir að hann kom út.

Efnilegur leikvöllur

Sá hluti leiksins sem kallast Portal er gífurlega efnilegur. Þar getur hver sem er búið til borð og leiki innan Battlefield sem byggja á eldri leikjum seríunnar. Finna má borð, vopn, farartæki og hermenn úr Battlefield 1942, Bad Company 2 og Battlefield 3 og láta þá etja kappi eftir sérstökum reglum.

Til að mynda er hægt að láta hermenn úr seinni heimsstyrjöldinni berjast á korti úr BF3 og gegn kínverskum nútímahermönnum, svo eitthvað sé nefnt.

Portal hefur notið sérstakra vinsælda en tengingin við framþróunarkerfi BF2042 var þó klippt, þar sem spilarar byrjuðu strax að misnota Portal til að safna reynslustigum í massavís.

Það sem heillar mig sérstaklega við Portal er að þar er hægt að velja vefþjóna sjálfur og því hef ég fengið stöðugustu leikina mína þar, þó þeir hafi aldrei verið fullkomnir.

Sérfræðingar með eigin hæfileika

Það hefur lengi verið hægt að velja sérstaka hermenn til að spila sem í Battlefield en ein af nýjungum Battlefield 2042 er að nú eru hermennirnir færri og þeirra hermaður með sérstaka hæfileika.

Maður velur ekki lengur á milli þess að vera leyniskytta, sjúkraliði eða annað heldur getur maður stillt mismunandi „loadout“, eins og það er kallað á ensku. Sum þeirra taka mið af hefðbundnum hlutverkum Battlefield en hægt er að bæta við þau og sniða að því hvernig þú spilar og hvaða sérfræðina þú notar.

Mér finnst þetta vera ágætt fyrirkomulag og með því er hægt að vera með meiri fjölbreytni í BF2042.

Annað sem Dice gerir vel er veðrið. Árið 2042 eru gífurlegar öfgar í veðrinu og getur það haft mikil áhrif á borð leiksins og tækni hermanna. Skýstrókar birtast reglulega og hleypa miklu lífi í viðureignirnar þegar þeir sjúga í sig jafnt hermenn sem skriðdreka og þeyta þeim um kortið.

Þetta veðurkerfi byggir á þeirri vinnu sem unnin var fyrir Battlefield 5 og mér finnst kerfið henta BF2042 og anda leiksins mjög vel.

Óþolandi vandræði

Eins og ég segi hér að ofan hef ég verið að spila leikinn á PC og í sannleikanum sagt, þá hef ég lent í allt of miklum vandræðum við spilun leiksins og það hefur hreinlega reynst erfitt að spila hann.

Þegar ég hef farið inn í nýja leiki hefur mér oft reynst ómögulegt að spila vegna hægra vefþjóna eða hægrar tengingu við vefþjón sem gæti þess vegna verið staðsettur í Suður-Ameríku. Í langflestum þeirra hefur „laggið“, eins og það er kallað, svo mikið að ég gat bara ómögulega spilað.

DICE

Tölvan mín er fín og netið hjá mér líka, ég hef allavega aldrei lent í nokkrum vandræðum með tölvuleiki hingað til. Í BF5 gat ég farið og sjálfur valið vefþjóna í Evrópu sem ég náði góðri tengingu við fyrir besta upplifun.

Það er ekki hægt í BF2042 og kemur fáránlega mikið niður á spiluninni. Það er eingöngu hægt að velja hvað maður vill spila og leikurinn velur vefþjón fyrir mann. Í gærkvöldi lenti ég fjórum sinnum í röð á vefþjóni sem var frosinn. Spilarar þar gátu ekkert gert nema drullað yfir leikinn og reynt aftur.

Mikil vonbrigði

Það er óþolandi að eyða tíma í að ferðast langar vegalengdir í leiknum og deyja svo óvænt og áður en maður fær tækifæri til að bregðast við vegna „laggs“. Svo hef ég ítrekað lent í því að tæma heilu magasínin á óvini á nánast engu færi án þess að hitta þá vegna galla leiksins. Það er eitthvað mjög skrítið við það hvernig vopnin virka í þessum leik og hvar maður er að hitta óvini.

DICE

Það á sérstaklega við skriðdreka þar sem mér hefur reynst nánast ómögulegt að stýra þeim.

Til viðbótar við þessi vef-vandræði eru BF2042 stútfullur af tæknilegum göllum. 

Ég er eiginlega bara orðinn reiður við að skrifa þetta. Ég hef varði hundruð klukkustunda í Battlefield-leikjum og ég man ekki til þess að hafa orðið fyrir eins miklum vonbrigðum áður.

Sérstakt hrós fyrir tónlistina

Mér er bókstaflega ómögulegt að hrósa Dice ekki fyrir tónlist BF2042. Þeir fengu Hildi Guðnadóttir til að skapa tónlistina og hljóð leiksins og það heppnaðist vel. Hildur skóp mjög svo hráa og dökka tónlist sem hentar sögusviðinu sérstaklega vel.

Samantekt-ish

Ég hef teiknað nokkuð dökka mynd af Battlefield 2042 enda finnst mér ótrúlegt að þessi leikur hafi verið gefinn út í því ástandi sem hann var og er í. Þetta er í annað sinn í vikunni sem skrifa þetta og það er í raun óþolandi útaf fyrir sig.

BF2042 er í óásættanlegu ástandi en það má þó finna ljóstýru í myrkrinu. Það er skemmtilegur efnilegur leikur þarna undir. Það er engir leikir sem geta skapað eins mikla óreiðu og Battlefield leikir og það getur verið unaður að taka þátt í stærðarinnar orrustum þeirra.

Eins og segir ofar er leikurinn á sama tíma einn sá óvinsælasti á Steam og einn þeirra leikja sem flestir eru að spila. Það er ástæða fyrir því.

Starfsmenn Dice munu þó þurfa að vinna hörðum höndum að því að plástra leikinn í bak og fyrir. Vonandi mun sú vinna ganga vel enda hef ég alltaf verið aðdáandi Battlefield-leikjanna og sé fram á að spila þennan leik alveg helling á komandi mánuðum.


Tengdar fréttir

GTA Trilogy: Fóru framúr sjálfum sér

„Fokk it. Þetta verður bara að duga.“ Þetta ímynda ég mér að forsvarsmenn Rockstar hafi sagt um nýútgefna endurgerð klassísku leikjanna GTA III (2001), GTA Vice City (2002) og GTA San Andreas (2004). Endurgerðin ber hinn einfalda og ljóðræna titil Grand Theft Auto: The Trilogy – The Definitive Edition.

Tíu ára útgáfa Skyrim: Féll aftur í gildru Bethesda

Ég veit ekki hversu oft ég hef bjargað heiminum frá drekanum Alduin. Ég hef gert það sem nokkurs konar dreka-víkingur með sverð og skjöld, sem galdrakarl og sem bogamaður, svo eitthvað sé nefnt. Skyrim spilaði ég mjög mikið þegar hann kom út í nóvember 2011. Síðan þá, ekki svo mikið.

Call of Duty: Vanguard - Sama gamla uppskriftin en kakan góð

Call of Duty: Vanguard er guðeinnveithvað-undi leikurinn í einni af vinsælli tölvuleikjaseríum heims. Fyrsti Call of Duty leikurinn kom út árið 2003 og fjallaði um seinni heimsstyrjöldina. Síðan þá hefur serían farið víðsvegar um heiminn og tíma og jafnvel farið út í geim. Nú er serían komin aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar, aftur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×