Skoðun

Sjúkraliðar eru í liði með þér

Sandra B. Franks skrifar

Eitt er víst, við deyjum öll. Og ef við erum heppin fáum við að eldast og verða gömul. Lífið er alls­konar og mörg okkar veikjast eða slasast á lífs­leiðinni. Þegar það gerist njótum við um­hyggju, hjúkrunar og lækninga fjöl­margra fag­stétta og ein­stak­linga.

Ein þessara stétta eru sjúkra­liðar. Stéttin sem gegnir lykil­hlut­verki í heil­brigðis­kerfinu. Við sinnum nær­hjúkrun og erum því mjög ná­lægt þeim sem þurfa að­stoð á erfiðustu stundum lífsins. Af fag­legri um­hyggju og alúð meta sjúkra­liðar líðan sjúk­linga og dag­legt á­standi þeirra, veita þeim við­eig­andi að­stoð við at­hafnir dag­legs lífs og styðja þá til að auka sjálfs­bjargar­getu sína.

55 ára

Sjúkra­liða­fé­lag Ís­lands var stofnað sem fag­fé­lag þann 21. nóvember 1966. Menntun og starf sjúkra­liða­stéttarinnar hefur tekið miklum breytingum síðan fyrstu sjúkra­liðarnir voru út­skrifaðir. Þörfin fyrir sjúkra­liða mun aukast næstu árin enda er þjóðin að eldast og líf­stíls­tengdir sjúk­dómar eru í sókn. En skortur á sjúkra­liðum snýst ekki bara um fjölda þeirra, heldur einnig um að þeim sé gert kleift að nýta kunn­áttu sína og færni, sam­hliða breyttu starfs­um­hverfi og þróun starfa við hjúkrun.

Í sam­starfi með öðrum fag­stéttum vinna sjúkra­liðar innan sjúkra­húsa, hjúkrunar­heimila, heilsu­gæslunnar og í heima­hjúkrun. Þar stöndum við vaktina á tímum Co­vid, alla daga allan sólar­hringinn og alltaf þegar á þarf að halda. Í raun er fátt sem er sjúkra­liðum ó­við­komandi, við sinnum fólki allt ævi­skeiðið. Okkar mark­mið er ykkar vel­líðan og nær­hjúkrun. Sjúkra­liðar eru í liði með þér, allt fram í and­látið.

Höfundur er for­maður Sjúkra­liða­fé­lags Ís­lands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.