Handbolti

„Hefur þú ekki bara verið breytingin á liðinu?“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leonharð Þorgeir Harðarson hefur verið að spila vel með FH-liðinu að undanförnu.
Leonharð Þorgeir Harðarson hefur verið að spila vel með FH-liðinu að undanförnu. Vísir/Hulda Margrét

FH-ingurinn Leonharð Þorgeir Harðarson var í viðtali í beinni útsendingu í Seinni bylgjunni í gærkvöldi en Leonharð átti mjög góðan leik í sigri á Stjörnunni í Mýrinni.

Leonharð Þorgeir skoraði fimm mörk og gaf fjórar stoðsendingar í sannfærandi sjö marka sigri FH-liðsins, 33-26.

Eins og oft áður fékk Seinni bylgjan mann leiksins í viðtal í beinni í upphafi þáttarins og fékk hann til að fara yfir leikinn með Stefáni Árna Pálssyni og sérfræðingunum.

„Leó hvernig líður þér eftir leikinn,“ spurði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar.

„Bara rosalega vel. Ógeðslega þreyttur en líður vel,“ sagði Leonharð Þorgeir Harðarson.

„Þú ert að koma inn í þetta lið og ert búinn að planta Gytis á bekkinn. Þú hlýtur að vera ánægður með það,“ spurði Stefán.

„Hann meiddist bara og þá þurfti maður að fylla upp í stöðuna á meðan. Ég er búinn að vera að spila ágætlega síðan þá,“ sagði Leonharð.

Bjarni Fritzson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni, vildi þó ganga miklu lengra.

„Hefur þú ekki svolítið bara verið breytingin á liðinu,“ spurði Bjarni en hélt áfram: „Mér hefur fundist FH-liðið miklu betra með betra flæði og tempó. Er það ekki akkúrat það sem þú kemur með inn að borðinu,“ spurði Bjarni.

„Jú þannig séð. Ég er allt öðruvísi leikmaður en Gytis. Ég er minni og hraðari og kem kannski með meira flot á boltann og bý til aðrar stöður. Það er hægt að segja það en ég veit ekki endilega hvort ég geri liðið betra,“ sagði Leonharð hógvær.

„Það er alla vega skemmtilegra að horfa á leikina,“ sagði Bjarni. FH-liðið hefur líka unnið fjóra af síðustu fimm leikjum og sá fimmti endaði með jafntefli á móti meisturum Vals.

Það má sjá allt viðtali hér fyrir neðan og þegar Leonharð fór yfir svipmyndir úr leiknum með sérfræðingunum.

Klippa: Seinni bylgjan: Viðtal við Leonharð eftir góða frammistöðu á móti StjörnunniFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.