Handbolti

Snorri Steinn: Ef ég er ekki í fyrsta sæti þá er ég ekki á­nægður með það

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Snorri Steinn, þjálfari Vals stappar stálinu í sína menn. 
Snorri Steinn, þjálfari Vals stappar stálinu í sína menn.  Vísir: Hulda Margrét

Snorra Steini Guðjónssyni, þjálfara Vals í handbolta leið illa eftir leikinn á móti FH en var þó stoltur af strákunum. Hörkuspennandi leikur sem endaði með jafntefli, 29-29.

Spilamennska Valsmanna var ekki sannfærandi fyrstu 20 mínútur leiksins og voru FH-ingar komnir í 6 marka mun, 4-10. 

„Við vorum ekki alveg nógu góðir í byrjun leiks. En svona ég var ánægður með síðustu 10 í fyrri og við vorum frábærir í seinni. Ég er gríðarlega ánægður og stoltur af strákunum. Það var erfiður undirbúningur fyrir þennan leik og við vorum að prófa nýja hluti á móti fullmönnuðu FH -liði þá er ég hrikalega ánægður og ég er hrikalega ánægður að vera ógeðslega fúll að hafa ekki unnið leikinn, því við áttum það skilið.“

Aðspurður hvað Valsmenn hefðu þurft að gera til þess að vinna leikinn sagði Snorri Steinn þetta:

„Það vantaði aðeins meiri klókindi og heppni í lokin. Það voru smá atriði sem gerðu það að verkum. En við gerum nánast allt mjög vel í dag.“

Valsmenn eru í 2. sæti deildarinnar með 11 stig. Snorri kvaðst ekki sáttur með það. 

„Ég veit ekki í hvaða sæti ég er en ef ég er ekki í fyrsta sæti þá er ég ekki ánægður með það.“

Næsti leikur er á sunnudaginn á móti Fram og vill Snorri sjá svipaða frammistöðu og í seinni hálfleiknum. 

„Bara svipað og við vorum að gera í seinni hálfleik. Það var góður neisti, góð barátta, góður vilji og við vorum miklu fastari fyrir heldur en í upphafi leiks. Við tökum það með okkur og undirbúum okkur undir Fram á sunnudaginn.“


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×