Handbolti

Ágúst Þór: Við eigum eftir að verða betri

Dagbjört Lena skrifar
Ágúst Þór Jóhansson, þjálfari Vals, var eðlilega kátur með sigurinn í dag.
Ágúst Þór Jóhansson, þjálfari Vals, var eðlilega kátur með sigurinn í dag. Vísir/Daníel Þór

Ágúst Þór Jóhannsson var að vonum sáttur eftir sigur Vals á Haukum á heimavelli í 5. umferð Olís deildar kvenna sem spilaður var fyrr í dag.

„Ég er mjög ánægður með leik liðsins, sérstaklega í seinni hálfleik. Við spiluðum frábærlega þá. Bæði var varnarleikurinn góður og við náðum að keyra vel í bakið á þeim. Svo fannst mér sóknarleikurinn líka að miklu leyti góður. Morgan Marie (Þorkelsdóttir) kom mjög öflug inn. Mariam (Eradze) var að skora góð mörk. Þetta var bara mjög jákvætt.“

Fyrri hálfleikur var virkilega jafn hjá liðunum en munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk. Síðan tóku Valskonur frumkvæðið í síðari hálfleik.

„Þetta var mjög jafnt í fyrri hálfleik þó að þær hafi nú verið frekar með frumkvæðið. Við komum svo grimmar inn í seinni hálfleikinn og tókum fast á þeim, náðum að brjóta vel og stoppa svolítið flæðið hjá þeim og fengum ódýr mörk úr hraðaupphlaupum. Svo fannst mér við bara spila nokkuð vel úr þessu síðasta korteri.“

Valur er ennþá taplaust eftir fyrstu fjóra leiki tímabilsins.

„Við erum búin að spila fjóra leiki í deildinni og höfum unnið þá alla. Það er bara jákvætt. Við ætlum að reyna að einbeitta okkur að því að bæta okkar leik núna milli umferða. Við eigum eftir að verða betri en það er jákvætt að geta náð í stig á meðan öll þessi spilamennska er ekki upp á tíu. Við bara höldum áfram að reyna að bæta okkur á báðum endum vallarins.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×