Körfubolti

Bulls ekki byrjað betur síðan Jordan lék með liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
DeMar DeRozan skoraði 26 stig þegar Chicago Bulls vann gamla liðið hans, Toronto Raptors.
DeMar DeRozan skoraði 26 stig þegar Chicago Bulls vann gamla liðið hans, Toronto Raptors. getty/Steve Russell

Fara þarf aftur til tíma Michaels Jordan til að finna jafngóða byrjun á tímabili hjá Chicago Bulls í NBA-deildinni og núna.

Bulls sigraði Toronto Raptors, 108-111, í nótt og hefur unnið alla fjóra leiki sína á tímabilinu. Bulls er eina ósigraða liðið í Austurdeildinni.

Þetta er í fjórða sinn sem Bulls vinnur fyrstu fjóra leiki sína á tímabili en í fyrstu þrjú skiptin sem það gerðist var Jordan leikmaður liðsins. Bulls hefur ekki byrjað jafn vel og tímabilið 1996-97. Þá vann liðið 69 af 82 leikjum sínum í deildarkeppninni og varð meistari, annað árið í röð.

DeMar DeRozan skoraði 26 stig fyrir Bulls og Zach LaVine 22. OG Anunoby var stigahæstur hjá Toronto með 22 stig.

Giannis Antetokounmpo skoraði þrjátíu stig, tók tíu fráköst og gaf níu stoðsendingar þegar meistarar Milwaukee Bucks unnu Indiana Pacers, 109-119. Khris Middleton bætti 27 stigum við fyrir Milwaukee sem hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu. Malcom Brogdon skoraði 25 stig fyrir Indiana.

Sigurgöngu Charlotte Hornets lauk þegar Boston Celtics kom í heimsókn. Boston vann 129-140 eftir framlengingu.

Jayson Tatum skoraði 41 stig fyrir Boston og Jaylen Brown þrjátíu. LaMelo Ball og Miles Bridges skoruðu 25 stig hvor fyrir Charlotte.

Úrslitin í nótt

  • Toronto 108-111 Chicago
  • Indiana 109-119 Milwaukee
  • Charlotte 129-140 Boston
  • Atlanta 122-104 Detroit
  • Brooklyn 104-90 Washington
  • Miami 107-90 Orlando
  • Minnesota 98-107 New Orleans
  • Denver 87-99 Cleveland
  • LA Clippers 116-86 Portland


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.