Körfubolti

Næturgaman hjá sjóðheitum Steph Curry

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var mjög gaman hjá Stephen Curry í sigri Golden State á Los Angeles Clippers í nótt.
Það var mjög gaman hjá Stephen Curry í sigri Golden State á Los Angeles Clippers í nótt. AP/Tony Avelar

Golden State Warriors og Milwaukee Bucks áttu bæði möguleika á því að byrja NBA tímabilið 2-0 í nótt en það voru NBA-meistararnir í Bucks sem voru skotnir niður á jörðina á meðan Stepp Curry leiddi sína menn til sigurs.

Stephen Curry skoraði 45 stig þegar Golden State Warriors vann 115-113 sigur á Los Angeles Clippers í fyrsta heimaleik liðsins á tímabilinu. Þetta var samt annar sigur Warriors því liðið vann Los Angeles Lakers á útivelli í fyrsta leik.

Golden State er því fyrsta liðið til að vinna tvo leiki á þessu NBA-tímabili og það gerðu Curry og félagar á móti Los Angeles liðunum sem gefur skýr skilaboð um að liðið ætli sér að berjast á réttum enda á þessari leiktíð.

Curry var kominn með 25 stig í fyrsta leikhlutanum þar sem hann hitti úr öllum níu skotum sínum þar af fimm fyrir utan þriggja stiga línuna. Warriors var líka 44-27 yfir eftir hann. Clippers kom sér þó inn í leikinn og spennan var mikil í lokin.

Tveir þristar frá Curry á lokamínútunum vógu þungt fyrir Warriors að landa sigrinum. Andrew Wiggins var næststigahæstur með 17 stig.

Paul George var með 29 stig. 11 fráköst og 6 stoðsendingar í fyrsta leik Los Angeles Clippers á leiktíðinni. Eric Bledsoe skoraði 22 stig.

Tyler Herro skoraði 27 stig á 24 mínútum af bekknum þegar Miami Heat rúllaði upp NBA-meisturum Milwaukee Bucks með 42 stiga sigri, 137-95. Þetta var fyrsti leikur Miami en Bucks hafði unnið sinn fyrsta leik.

„Ég meina, 137 er mikið. Vonandi getum við séð mikið á þessu tímabili,“ sagði Tyler Herro eftir leikinn. Jimmy Butler skoraði 21 stig og Bam Adebayo var með 20 stig og 13 fráköst hjá Heat.

P.J. Tucker hjálpaði Bucks að vinna titilinn fyrir nokkrum mánuðum en er nú leikmaður Miami. Hann var með 8 stig og 6 fráköst. Giannis Antetokounmpo skoraði 15 stig og tók 10 fráköst en Grayson Allen var með 14 stig.

Atlanta Hawks fór illa með Dallas Mavericks en Luka Doncic og félagar töpuðu með 26 stigum í Atlanta, 87-113. Trae Young fór fyrir liði heimamanna með 19 stigum og 14 stoðsendingum.

Þetta var fyrsti leikur Dallas liðsins undir stjórn Jason Kidd sem byrjar ekki vel sem þjálfari liðsins. Luka Doncic var með 18 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar.

Cam Reddish var þó stigahæstur hjá Hawks með 20 stig en Hawks liðið lagði grunninn að sigrinum með því að vinna þriðja leikhlutann 35-20 þar sem Trae Young var með 12 stig og 9 stoðsendingar.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.