Handbolti

Rakel Dögg: Þarf að rúlla betur yfir leikinn áður en ég kem með gáfuleg svör

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir var mjög ánægð með fyrri hálfleikinn gegn Val en ekki jafn ánægð með þann seinni.
Rakel Dögg Bragadóttir var mjög ánægð með fyrri hálfleikinn gegn Val en ekki jafn ánægð með þann seinni. vísir/vilhelm

Rakel Dögg Bragadóttur, þjálfara Stjörnunnar, var orða vant eftir tapið fyrir Val. Stjörnukonur voru yfir í hálfleik, 15-13, en töpuðu seinni hálfleiknum með tíu mörkum, 18-8, og leiknum, 23-31.

„Ég hef eiginlega ekki svör fyrir þig núna. Ég veit ekki hvað gerði það að verkum að við hrynjum niður í seinni hálfleik. Ég þarf að rúlla betur yfir leikinn áður en ég kem með gáfuleg svör,“ sagði Rakel í samtali við Vísi í leikslok.

Hún var mjög ánægð með hvernig Stjarnan spilaði í fyrri hálfleik.

„Frábær fyrri hálfleikur en það voru samt þættir sem við vildum laga, sérstaklega í vörninni. En þetta fór þvert á það sem við ætluðum okkur að gera. En fyrri hálfleikurinn var frábær, við sýndum góða spilamennsku og getum tekið það með okkur,“ sagði Rakel.

Valskonur komu grimmar til leiks í seinni hálfleiks og náðu undirtökunum. En þegar rúmar tíu mínútur voru eftir gátu Stjörnukonur minnkað muninn í eitt mark. Það gekk ekki, Valur skoraði fjögur mörk í röð og kláraði leikinn.

„Við vorum svolítið fljótar að brotna í dag. Það var erfitt að byrja seinni hálfleikinn illa en við gerðum vel í að koma til baka. En undir lokin tókum við of margar óskynsamlegar ákvarðanir. En það var aðallega varnarleikurinn sem var í ólagi. Við fengum alltof mörg mörk á okkur,“ sagði Rakel.

Stjarnan er bara með tvö stig eftir fyrstu fjóra leiki sína í Olís-deildinni. Þrátt fyrir það hefur Rakel ekki áhyggjur af stöðu Garðbæinga.

„Við erum með gott lið og höfum átt mjög góða kafla í þessum leikjum. Við höfum átt gríðarlega erfiða leiki. Fyrirfram er ekki óeðlilegt að vera bara með tvö stig en auðvitað er maður alltaf svekktur eftir tapleiki. En sem betur fer er bara október og nóg eftir af tímabilinu,“ sagði Rakel að lokum.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×