Umfjöllun og viðtöl: Valur - ÍBV 27-21 | Góður fyrri hálfleikur lagði grunninn að góðum sigri Valsmanna

Andri Már Eggertsson skrifar
Valur ÍBV Olís deild karla sumar 2021 handbolti HSÍ
Valur ÍBV Olís deild karla sumar 2021 handbolti HSÍ Elín Björg

Valsmenn höfðu betur í stórleik umferðarinnar í Olís-deild karla þegar Eyjamenn kíktu í heimsókn á Hlíðarenda, 27-21.

ÍBV skoraði fyrsta mark leiksins og var það í eina skiptið sem liðið komst yfir í leiknum. Þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af leiknum var Valur tveimur mörkum yfir 6-4. Dánjal Ragnarsson skoraði fjórða mark ÍBV en eftir mark hans kom óskiljanlegur kafli hjá ÍBV.

Eyjamenn áttu í miklum vandræðum með hreyfanlega vörn Vals. Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í fyrri hálfleik og dró tennurnar úr leikmönnum ÍBV. Björgvin Páll varði 12 bolta í fyrri hálfleik og var með 63 prósent markvörslu í hálfleik.

Á 28. mínútu skoraði Kári Kristján Kristjánsson 5 mark ÍBV í leiknum. Rúmlega fimmtán mínútna kafli sem ÍBV tókst ekki að skora. Valur var þá 13-5 yfir og var Björn Viðar Björnsson, markmaður ÍBV, eini með lífsmarki á þessum kafla og sá til þess að Valur skoraði aðeins 13 mörk. Staðan í hálfleik 14-7. 

Eftir afleiddan fyrri hálfleik byrjaði ÍBV síðari hálfleik af miklum krafti. Gestirnir frá Vestmannaeyjum skoruðu fyrstu tvö mörkin og minnkuðu muninn niður í fimm mörk. Sigtryggur Daði Rúnarsson fékk tveggja mínútna brottvísun í kjölfarið og Valur komst betur inn í leikinn.

Eftir að Valur náði betri takti í seinni hálfleik var aðeins spurning hversu stór sigur Vals yrði. Valur vann á endanum sex marka sigur 27-21. 

Af hverju vann Valur?

Vörn og markvarsla Vals í fyrri hálfleik var stórkostleg. Vörn Vals var afar hreyfanleg og þegar leikmenn ÍBV náðu að brjótast í gegn þá varði Björgvin Páll Gústavsson nánast hvert einasta skot ÍBV. 

ÍBV skoraði aðeins 21 mark í öllum leiknum sem mun aldrei duga til sigurs i handboltaleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Björgvin Páll Gústavsson, markmaður Vals, átti stórleik. Á tímapunkti í fyrri hálfleik var Björgvin Páll með 71 prósent markvörslu. Björgvin Páll endaði á að verja 15 bolta í leiknum. 

Agnar Smári Jónsson byrjaði á að fá tveggja mínútna brottvísun þegar hann var varla búinn að vera inn á vellinum í 10 sekúndur. Agnar Smári mætti svo aftur inn á og spilaði vel. Agnar endaði á að skora 5 mörk úr 7 skotum. 

Benedikt Gunnar Óskarsson er að stimpla sig afar vel inn í lið Vals. Benedikt stýrði miðjunni afar vel og skoraði 3 mörk ásamt því að skapa helling af færum fyrir liðsfélaga sína. 

Hvað gekk illa? 

Sóknarleikur ÍBV var í molum í fyrri hálfleik. ÍBV skoraði aðeins 7 mörk og var útilína liðsins aðeins með tvö mörk í fyrri hálfleik.

Hvað gerist næst?

Næsta sunnudag mætast KA og Valur í KA-heimilinu klukkan 18:00.

Næsti leikur ÍBV er gegn Fram 29. október. Leikurinn hefst klukkan 18:00.

Snorri Steinn: Að fá á sig sjö mörk í fyrri hálfleik er ásættanlegt 

Snorri Steinn Guðjónsson var ánægður með leik dagsinsVísir/Hulda Margrét

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var ánægður með sex marka sigur á ÍBV. 

„Þetta var heilsteyptur leikur hjá okkur. Við tökum snemma öll völd á leiknum og hjálpaði Björgvin Páll mikið til, hann var rosalegur í fyrri hálfleik. Ég er óánægður með dauðafærin sem við klikkuðum á,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson eftir leik. 

Valur fékk aðeins á sig sjö mörk í fyrri hálfleik og var Snorri Steinn ánægður með þá tölfræði. 

„Þegar ÍBV náði að slíta okkur í sundur þá varði Björgvin Páll sem hjálpaði okkur mikið. Að fá á sig sjö mörk í hálfleik er fínt, ég get lifað með því.“

Útilína Vals var á tímabili skipuð ungum og reynsluminni leikmönnum og var Snorri ánægður með þeirra framlag.

 „Þeir voru geggjaðir. Þeir eru þarna af ástæðu svo þetta kemur ekkert á óvart. Agnar Smári átti líka góða innkomu.“

„Heilt yfir var þetta mjög góður leikur. Fyrir utan dauðafærin sem við klikkuðum á,“ sagði Snorri Steinn sem fagnar fertugs afmæli sínu í dag. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira