Viðskipti innlent

Einn af hverjum tíu greiðir minnst 70 prósent tekna í leigu

Eiður Þór Árnason skrifar
Sveiflur hafa verið á framboði leiguhúsnæðis vegna áhrifa heimsfaraldursins. 
Sveiflur hafa verið á framboði leiguhúsnæðis vegna áhrifa heimsfaraldursins.  Vísir/Vilhelm

Þrettán prósent þeirra sem leigja íbúðahúsnæði af einstaklingum eða einkareknu leigufélagi greiða 70 prósent eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Hlutfallið er hærra hjá einstaklingum sem búa á stúdentagörðum, eða 15 prósent.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem framkvæmd var fyrir hagdeild Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Fjallað er um niðurstöðurnar í nýrri mánaðarskýrslu hagdeildarinnar en heilt yfir sögðust 10,5 prósent svarenda greiða 70 prósent eða meira af ráðstöfunartekjum í leigu. Samsvarar þetta þúsundum heimila í landinu. Um 27 prósent svarenda sögðust greiða um helming eða meira af ráðstöfunartekjum í leigu.

Morgunblaðið greindi fyrst frá. Samkvæmt skýrslu HMS hækkar almennt hlutfall leigufjárhæðar af ráðstöfunartekjum lítillega milli ára og fer úr 44 prósentum í 45 prósent. Árin á undan hafði hlutfallið verið í kringum 40 prósent. 

Niðurstöður úr könnun Prósents sem unnin var fyrir hagdeild Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.HMS

Að sögn hagdeildar HMS gæti þetta einnig verið til marks um það að tekjuhærri einstaklingar hafi náð að kaupa sér húsnæði eftir að vextir lækkuðu.

Í því samhengi mátti einmitt greina versnandi fjárhag leigjenda á milli ára í fyrra en hins vegar virðist hann batna nú miðað við könnunina í ár.

Um 49,7 prósent leigjenda, 18 ára og eldri, segjast fá greiddar húsnæðisbætur. Þetta samsvarar hækkun um 1,6 prósentustig á milli ára.

Nýjum þinglýstum leigusamningum fækkar

Samkvæmt greiningu hagdeildar HMS hélt þinglýstum leigusamningum áfram að fækka í ágúst miðað við 12 mánaða breytingu á fjölda útgefinna samninga í hverjum mánuði.

Ánægja með leiguhúsnæði stendur nánast í stað milli ára samkvæmt könnun HMS. Að sögn hagdeildarinnar er áberandi hvað leigjendur hjá einkareknu leigufélögunum og þeir sem leigja hjá sveitarfélögum eru óánægðir í samanburði við aðra. Þeir sem leigja af óhagnaðardrifnu leigufélagi og hjá ættingjum og vinum eru mun ánægðari með íbúðarhúsnæði sitt en aðrir.

Hversu auðvelt leigjendum fannst að verða sér úti um núverandi húsnæði lækkar örlítið á milli ára að meðaltali eftir að hafa hækkað í öllum könnunum sem framkvæmdar hafa verið síðan 2015.

Meðaltalið er hins vegar enn sögulega hátt en hlutföllin í ár eru á pari við svörun í könnuninni sem framkvæmd var á sama tíma árið 2019. Að sama skapi minnkar hlutfall þeirra sem telja að nægt framboð sé af íbúðarhúsnæði til leigu sem hentar þeim og þeirra fjölskyldu.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×