Dusty hafði betur gegn Sögu

Snorri Rafn Hallsson skrifar
dusty saga 12. okt 2021

Fyrir leikinn þótti lið Dusty sigurstranglegra, enda nýbúnir að rúlla yfir reynsluboltana í Ármanni í síðustu viku þar sem þjálfarinn Clvr lék stórt hlutverk. Leikmenn Sögu átti svo harma að hefna eftir að hafa staðið uppi í hárinu á sterku liði XY í síðasta leik sínum en tapað að lokum. Dusty og Saga mættust í Nuke kortinu sem bæði lið þekkja bæði afar vel. ADHD, leikmaður Sögu getur gert góða hluti þar á vappanum og var því spennandi einvígi milli hans og Thor í kortunum.

Saga vann hnífalotuna og fékk því að byrja í vörn (Counter-Terrorists). Liðið mætti sjóðheitt til leiks og krækti sér í fyrstu þrjár loturnar. Pandaz felldi þrjá í fyrstu lotu og næstu tveimur var bjargað fyrir horn af þeim félögum Brnr og ADHD. Sigrarnir reyndust þó dýrir og fjárhagurinn var ekki upp á sitt besta. Í fjórðu lotu keypti Dusty AK á línuna en Saga þurfti að spara við sig í vopnakaupum og búnaði. Dusty nýtti það til að tryggja sér völdin á útisvæðinu og sigla fram úr Sögu. Saga gafst þó alls ekki upp og tókst að jafna leika og munaði þar um ADHD á vappanum til að koma Sögu í yfirtölu snemma í lotunum. Thor spýtti þá í lófana og tók að fella ADHD í staðinn og þannig gátu leikmenn Dusty þétt sínar raðir og náð stjórn á hálfleiknum.

Staða í hálfleik: Dusty 9 - 6 Saga

Aftur fór Saga vel af stað í upphafi hálfleiks. Leikmenn liðsins komust langt inn á kortið áflogalaust og var við það að jafna leika á ný í tuttugustu lotu þegar galgopalega innkoma kom í kollinn á þeim og leikmenn sögu stráféllu fyrir þéttri vörn Dusty. Eftir það var lítið úr því sem Saga reyndi að gera. Þrátt fyrir að búa yfir snjöllum aðgerðum virðist vanta breidd í liðið. Þegar Dusty náði að stoppa í götin sem mynduðust höfðu í vörninni gat Saga lítið dregið upp úr hattinum til að bregðast við því. Eddezennn átti frábæran síðari hálfleik og munaði hársbreidd á að hann næði fallegum ás þegar Midgard felldi síðasta leikmann Sögu í tuttugustu og fjórðu lotu. Dusty vélin var þá komin í gang og tengdi liði saman síðustu fimm loturnar til að tryggja sér annan sigurinn á tímabilinu.

Lokastaða: Dusty 16 - 10 Saga

Dusty situr nú á toppi deildarinnar ásamt XY og mætir nýliðum Kórdrengja á föstudaginn í næstu viku. Eftir situr Saga með sárt ennið á botninum en það er aldrei vita hvort þeim takist að krækja sér í stig gegn Vallea næsta þriðjudag. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira