Körfubolti

Njarðvíkingar og Valskonur með sigra í Subway-deildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ameryst Alston var mögnuð í kvöld.
Ameryst Alston var mögnuð í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Njarðvíkingar og Valskonur unnu sigra í Subway-deild kvenna í kvöld. Njarðvíkingar fengu Fjölniskonur í heimsókn og unnu tíu sti-ga sigur, 71-61, og á sama tíma unnu Valskonur 22 stiga útisigur gegn Skallagrími, 92-70.

Leikur Njarðvíkur og Fjölnis var nokkuð jafn framan af, og liðin héldust í hendur fram að hálfleik. Þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 34-29, Fjölniskonum í vil.

Heimakonur mættu grimmar til leiks í síðari hálfleik. Gestirnir í Fjölni skoruðu ekki nema tíu stig í þriðja leikhluta, gegn tuttugu stigum heimakvenna.

Njarðvíkingar juku forskot sitt lítillega í fjórða leikhluta og unnu að lokum tíu stiga sigur, 71-61. Aliyah A'taeya Collier átti frábæran leik í liði Njarðvíkinga með 17 stig, sjö stoðsendingar og hvorki meira né minna en 18 fráköst.

Hinn leikur kvöldsins bauð ekki upp á alveg jafn mikla spennu. Valskonur leiddu með fimm stigum að loknum fyrsta leikhluta, en í öðrum leikhluta skoruðu þær 31 stig gegn aðeins 14 stigum Skallagríms.

Staðan var því 54-32 þegar flautað var til hálfleiks, en Valskonur juku forskot sitt lítillega í þriðja leikhluta. Lokaleikhlutinn bauð svo upp á mjög fá stig, en það var eini leikhlutinn sem heimakonur unnu.

Lokatölur urðu 92-70, en Ameryst Alston átti algjörlega frábæran leik í liði Vals. Hún skoraði 36 stig, gaf sex stoðsendingar og tók 11 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×