Skoðun

Enginn stjórn­mála­flokkur mun niður­greiða sál­fræði­þjónustu og út­rýma bið­listum

Þórarinn Hjartarson skrifar

Ótrúverðugasta slagorð kosningabaráttunnar er „útrýmum biðlistum.” Slagorðið er aðlaðandi en líkt og mörg önnur á það sér enga stoð í raunveruleikanum. Margir flokkar hafa slegið þessu fram en Viðreisn hefur verið mest áberandi. Sjálfstæðisflokkurinn, sem stærir sig af því að vera flokkur rökfestu, hefur jafnvel slegið þessu fram. Undirritaður skrifaði grein fyrir skömmu og sagði fyrirheit sumra stjórnarandstöðuflokka um að niðugreiða sálfræðiþjónustu ásamt því að útrýma biðlistum væri fásinna. Þessi tvö loforð eru í andstöðu hvort við annað. Stjórnmálamenn gera sér grein fyrir þessu en freistingin að nýta sér vanlíðan ungs fólks virðist vera sterkari en skyldan til að horfast í augu við raunveruleikann.

Geðheilsa margra ungmenna er bágstödd. Enginn geðlæknir hefur útskrifast hér á landi síðan 2018, sjálfvígstíðni ungra kvenna hefur aukist og andleg vanlíðan í þeirra hópi vaxið með aukinni notkun samfélagsmiðla. Vandinn, hins vegar, snýr að framboði og eftirspurn. Ef sálfræðiþjónusta yrði niðurgreidd myndi eftirspurnin aukast svo um munar. Fólk sem gæti beðið myndi lengja bið fólks sem væri í brýnni þörf fyrir þjónustuna. Og biðlistar eftir sálfræðiþjónustu eru nú þegar langir. Ef gripið væri til ráða sumra stjórnmálaflokkanna í þessum málum myndu biðlistar margfaldast.

Til að koma til móts við efnalítið fólk væri hægt að miða niðurgreiðslu sjálfræðiþjónustu við tekjur. Slagorð þess efnis yrði þó óþjált og myndi ekki hljóma eins vel. Það er því einfaldara að slá fram tálsýn sem betur hljómar.

Það er gömul saga og ný að á fjögurra ára fresti lofa stjórnmálamenn breytingum sem þeir standa ekki við. En það er eitthvað sérstaklega ógeðfellt við það þegar reynt er að smala atkvæðum með fölskum loforðum um að bæta geðheilsu ungs fólks.

Enginn stjórnmálaflokkur mun niðurgreiða sálfræðiþjónustu ásamt því að útrýma biðlistum.

Höfundur er þáttastjórnandi í hlaðvarpinu Ein pæling.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.