Erlent

Facebook þarf að afhenda gögn um þjóðarmorð á róhingjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Hatur á róhingjum í Búrma var dreift víða á Facebook í aðdraganda þjóðarmorðsins á þeim. Facebook brást seint við og hefur neitað að veita upplýsingar um reikninga sem það eyddi vegna færslnanna.
Hatur á róhingjum í Búrma var dreift víða á Facebook í aðdraganda þjóðarmorðsins á þeim. Facebook brást seint við og hefur neitað að veita upplýsingar um reikninga sem það eyddi vegna færslnanna. Vísir/EPA

Alríkisdómari í Bandaríkjunum skipaði samfélagsmiðlarisanum Facebook að gera opinber gögn um reikninga sem tengdust þjóðarmorði á róhingjum í Búrma en var lokað. Skammaði hann Facebook fyrir að afhenda ekki alþjóðlegum rannsakendum gögnin.

Facebook hefur neitað að afhenda gögn um reikninga sem hvöttu til þjóðarmorð á róhingjum. Fyrirtækið ber fyrir sig að það væri lögbrot í Bandaríkjunum að veita upplýsingar um fjarskipti notenda þess.

Dómari í Washington-borg sagði færslurnar sem um ræðir ekki njóta verndar á grundvelli þeirra laga. Afhenti Facebook ekki gögnin væri fyrirtækið að auka enn hörmungarnar sem hafa dunið á róhingjum, að því er segir í frétt Reuters.

Fleiri en 730.000 róhingjamúslimar flúðu ofsóknir stjórnarhersins í Rakhine í Búrma árið 2017. Flóttamennirnir hafa lýst fjöldamorðum og nauðgunum. Hermenn eru sakaðir um að hafa myrt óbreytta borgara og kveikt í þorpum.

Stjórnvöld í Búrma héldu því fram að þau ættu í höggi við uppreisnaröfl og neituðu að hafa framið kerfisbundin voðaverk. Þau hafa engu að síður verið sökuð um þjóðarmorð á vettvangi Alþjóðasakamáladómstólsins í Haag. Gambísk stjórnvöld höfðuðu mál gegn Búrma þar og vilja þau frá gögnin frá Facebook í tengslum við málið.

Rannsakendur Sameinuðu þjóðanna töldu Facebbok hafa átt þátt í að dreifa hatri á róhingjum sem kynti undir ofbeldið gegn þeim. Fyrirtækið viðurkenndi sjálft að það hefði brugðist of seint við upplýsingafalsi og hatri í Búrma.

Bandaríski alríkisdómarinn taldi að Facebook hefði gert rétt með að eyða reikningum sem deildu hatri á róhingjum en fyrirtækið hefði gert mistök með því að deila ekki upplýsingum um þá.

Talsmaður Facebook sagði að fyrirtækið færi nú yfir niðurstöðu dómstólsins en benti á að það hefði þegar veitt rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna í Búrma upplýsingar sjálfviljugt og í samræmi við lög.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.