Handbolti

Sel­fyssingar á­fram í Evrópu eftir jafn­tefli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hergeir Grímsson var sendur snemma í sturtu í dag.
Hergeir Grímsson var sendur snemma í sturtu í dag. Vísir/Daníel

Selfyssingar eru komnir áfram í 2. umferð Evrópubikarkeppninnar í handbolta eftir að hafa gert jafntefli gegn tékkneska liðinu Koprivnice í dag. Lokatölur 28-28, en Selfoss vann fyrri leikinn með sex mörkum og fara því áfram.

Liðin fylgdust að í gegnum fyrri hálfleikinn, en það voru þó Tékkarnir sem að virtust skrefi á undan lengst af. 

Selfyssingar tóku þó forystuna rétt fyrir hálfleiksflautið, áður en að Koprivnice jafnaði aftur og staðan var 14-14 þegar gengið var til búningsherbergja.

Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik og liðin héldust í hendur og skiptust á að skora. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður fékk Hergeir Grímsson sína þriðju brottvísun og var því sendur snemma í sturtu.

Eftir það náðu Tékkarnir upp smá forskoti og þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka var munurinn orðin þrjú mörk og allt gat gerst.

Selfyssingar voru þó sterkir á lokakaflanum og náðu að minnka muninn aftur niður í eitt mark. Haukur Páll Hallgrímsson skoraði svo seinasta mark leiksins af vítalínunni og jafnaði metin í 28-28, sem urðu lokatölur leiksins.

Selfyssingar eru því á leið í aðra umferð Evrópubikarkeppninnar þar sem að þeir mæta RK Jeruzalem Ormos frá Slóveníu.


Tengdar fréttir

Selfyssingar með sex marka forystu eftir fyrri leikinn

Selfyssingar heimsóttu tékkneska liðið Koprivnice í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð Evrópubikarkeppni karla í handbolta í dag. Selfyssingar voru með frumkvæðið allan leikinn og unnu að lokum öruggan sex marka sigur, 25-31.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×