Handbolti

Íslendingalið Gummersbach hóf tímabilið á sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson leikur með Gummersbach.
Elliði Snær Viðarsson leikur með Gummersbach. EPA-EFE/URS FLUEELER

Íslendingaliðið Gummersbach undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar vann góðan níu marka sigur gegn Lubeck-Schwartau í fyrstu umferð þýsku B-deildarinnar. Lokatölur 31-22, en Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson leika með liðinu.

Nokkuð jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik, en heimamenn í Gummersbach voru þó skrefinu á undan. Þegar að flautað var til hálfleiks var staðan 13-10, Gummersbach í vil.

Guðjón Valur og lærisveinar hans mættu grimmari til leiks í seinni hálfleik og þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka var staðan orðin 25-17.

Heimamenn litu aldrei um öxl og lönduðu að lokum öruggum níu marka sigri, 31-22. Þetta var seinasti leikur fyrstu umferðar þýsku B-deildarinnar, en Gummersbach var aðeins einum sigri frá því að tryggja sér sæti í efstu deild á seinustu leiktíð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×