Viðskipti innlent

Sam­þykkja styrki ís­lenskra stjórn­valda til einka­rekinna fjöl­miðla

Eiður Þór Árnason skrifar
Bente Angell-Hansen, forseti ESA.
Bente Angell-Hansen, forseti ESA. ESA

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti í dag rekstrarstuðning stjórnvalda til einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Er það mat stofnunarinnar að um að sé að ræða ríkisaðstoð sem rúmist innan ákvæða EES-samningsins.

Áður hafði ESA samþykkt tímabundna ráðstöfun ríkisstjórnarinnar til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla hér á landi sem áttu í fjárhagserfiðleikum vegna kórónuveirufaraldursins. 

Nýja úrræðið er áframhald af því og gildir til lok næsta árs. Heildarupphæð ráðstöfunarinnar er 724 milljónir króna og verða 392 milljónir settar í beina styrki til einkarekinna fjölmiðla á þessu ári.

Í tilkynningu frá ESA segir að EES-samningurinn leggi áherslu á fjölbreytileika á fjölmiðlamarkaði og að tryggja skuli aðgengi fólks að fjölbreyttu fjölmiðlaefni.

„Einkareknir fjölmiðlar eru mikilvægur hluti af heildarumhverfi fjölmiðlamarkaðarins, og er ríkisaðstoðin réttlætanleg.“

Í síðustu viku greindi mennta- og menningarmálaráðuneytið frá því að í ár myndu styrkirnir dreifast til nítján fjölmiðlafyrirtækja. Hæstu framlögin, rúm 81 milljón króna hvert, fá Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið, mbl.is og K100, Sýn, sem rekur fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, og Torg, sem gefur út Fréttablaðið, DV og Hringbraut.

Vísir er í eigu Sýnar hf.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×