Skoðun

Þú þarft víst barna­bætur!

Dagbjört Hákonardóttir skrifar

Þegar ég var að borða sand á rólóvöllum 9. áratugs seinustu aldar var ég eitt af heppnu börnunum sem fengu að fara á leikskóla. Mamma starfaði sem hjúkrunarfræðingur á Borgarspítalanum í Fossvogi sem rak þar yndislega leikskóla í því skyni að starfsfólk spítalans gæti unnið eðlilegan vinnudag. Þegar mamma fór í fæðingarorlof 1988 missti ég plássið mitt. Leikskólinn var þrátt fyrir allt hugsaður sem geymslustaður í augum stjórnvalda, ekki sem sjálfsögð menntastofnun. Leikskólapláss buðust almennt ekki börnum nema ef foreldrarnir væru einstæðir eða í námi, nú eða þá í gegnum tengslanetið. Ástæða þess að ekki voru til leikskólar í hverju hverfi var sáraeinföld: kostnaðurinn þótti of mikill.

Leikskólabyltingin sem heppnaðist

Við þekkjum svo gang sögunnar. Reykjavíkurborg stóð fyrir byltingu í leikskólamálum undir forystu félagshyggjufólks. Daglöng leikskólavist skyldi bjóðast öllum börnum, og við það hefur verið staðið. Önnur sveitarfélög fylgdu síðan á eftir. Í dag eru flestir leikskólar reknir af hinu opinbera og með nær hverju barni á einkareknum skóla fylgir fjárframlag frá sveitarfélagi. Sá hægrimaður sem er mótfallinn íslenska dagvistunarkerfinu fyrirfinnst varla lengur. 94% foreldra leikskólabarna voru ánægð með leikskóla barns síns samkvæmt viðhorfskönnun í Reykjavíkurborg í mars 2021. Tilhugsunin um að einhver legði til að einkavæða þessa almannaþjónustu í dag er fjarstæðukennd.

Millistéttin ber þungar byrðar

Það er vert að rifja upp baráttu og afrek félagshyggjufólks fyrir leikskólakerfinu í tengslum við umræðu sem nú á sér stað vegna tillögu Samfylkingarinnar um gerbreytt barnabótakerfi á Íslandi. Í dag eru barnabætur í raun fátæktarstyrkur og afar lágtekjumiðaðar, en bæturnar byrja að skerðast ef árstekjur fara yfir 3.900.000 kr., eða 325.000 kr. á mánuði. Það þýðir að vísitölufjölskylda með venjulegar meðaltekjur en gífurlegar skuldbindingar í formi fasteignalána, námslána að ótöldum öllum þeim útgjöldum sem fylgja því að eiga börn, fær ekki sama stuðning og fólk í sömu stöðu í Norðurlöndunum.

924.000 kr. á ári?

Meðalfjölskylda með tvö börn, sem í dag fær engar barnabætur, mun með kerfisbreytingunum sem Samfylkingin leggur til fá því sem nemur um 54 þúsund krónur í hverjum mánuði og einstætt foreldri um 77 þúsund krónur, miðað við núverandi verðlag og aðstæður. Með þessu drögum við úr skattbyrði lágtekju- og millitekjufólks og lækkum jaðarskatt á hverja viðbótarkrónu sem fólk vinnur sér inn.

Raunveruleg og tímabær kerfisbylting

Tillögur Samfylkingarinnar fela í sér raunverulega byltingu fyrir fjárhag venjulegra barnafjölskyldna á Íslandi og munu gagnast börnum beint. Sömu rök eru að baki almennum barnabótum og íslenska leikskólakerfinu: Barnafjölskyldur þurfa á þessum stuðningi að halda. Þetta er skattaafsláttur til barnafólks og er umfram allt mjög skynsamleg meðferð á almannafé sem er felur í sér útfærða og fjármagnaða leið af hálfu Samfylkingarinnar.

Efasemdaraddir sem telja barnabætur til peningasóunar minna of vel á við það sem haft verður eftir andstæðingum íslenskra leikskólakerfisins fyrir þrjátíu árum. Þegar barnabætur hafa verið innleiddar að norrænni fyrirmynd hér á landi undir forystu Samfylkingarinnar, munum við aldrei vilja snúa til baka.

Höfundur er lögfræðingur og vísitölufjölskyldukona, og skipar 3. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×