Handbolti

Sveinn Jóhannsson hafði betur gegn Aroni Pálmarssyni í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sveinn Jóhannsson skoraði tvö mörk fyrir SønderjyskE.
Sveinn Jóhannsson skoraði tvö mörk fyrir SønderjyskE. vísir/andri marinó

Sveinn Jóhannsson og félagar hans í SønderjyskE unnu í kvöld góðan 29-28 sigur gegn Aroni Pálmarssyni og félögum hans í Aalborg í fyrstu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, en SønderjyskE hafði þó yfirhöndina framan af. Það var ekki fyrr en undir lok hálfleiksins sem Aron og félagar tóku forystuna í fyrsta skipti í leiknum þegar þeir komust í 13-12. Staðan var jöfn þegar flautað var til hálfleiks, 14-14.

Seinni hálfleikur var mjög sveiflukenndur, en Sveinn og félagar hans náðu fljótt fjögurra marka forystu. Aron og félagar voru hinsvegar fljótir að minnka muninn aftur niður í eitt mark en misstu SønderjyskE svo aftur fjórum mörkum fram úr sér og staðan því 24-20 um miðjan seinni hálfleik.

SønderjyskE hélt áfram að þjarma að Aalborg næstu mínúturnar og náði mest sex marka forskoti í stöðunni 28-22 en þá komu þrjú mörk í röð frá Aroni og félögum og enn allt opið.

Aalborg skoraði raunar sex af seinustu sjö mörkum leiksins, en það dugði þó ekki og Sveinn og félagar hans í SønderjyskE fóru með eins marks sigur, 29-28.

Sveinn skoraði tvö mörk í liði SønderjyskE en Aron skoraði fjögur mörk fyrir gestina frá Aalborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×