Skoðun

Við­reisn at­kvæða

Þórólfur Heiðar Þorsteinsson skrifar

Sá möguleiki er fyrir hendi að úrslit komandi kosninga til Alþingis munu ekki endurspegla að fullu vilja þjóðarinnar. Kannanir sýna að mögulega munu stjórnmálaflokkar fá fleiri þingmenn en þeir ættu rétt á samkvæmt öllum eðlilegum skilningi.

Er það sanngjarnt? Hvernig stendur á því? Reglur til þingkosninga eru víst þannig úr garði gerðar að þetta er raunverulegur möguleiki. Sum atkvæði vega þyngri en önnur.

Hvers vegna er þessu ekki breytt? Oftast eru nefnd byggðarsjónarmið. Í gamla daga var það vissulega réttmæt sjónarmið, þegar fjarlægðir voru miklar og samskipti erfiðari. En það á ekki lengur við. Það er hægt að styrkja og efla byggðir landsins með öðrum og markvissari hætti.

Þetta er nefnilega jafnræðismál. Eins og svo mörg önnur sem við höfum tekist á við og breytt á undanförnum áratugum.

Það eru fá borgaraleg mannréttindi mikilvægari en kosningarétturinn. Þess vegna svíður það að atkvæði mitt sé minna virði en annarra, bara af því ég bý á tilteknum stað. En síðan í tæplega klukkutíma fjarlægð frá heimili mínu er atkvæði tvöfalt á við mitt. Ísland er ekki stórt land né fjölmennt. Samgöngur og fjarskipti eru ágætar hér á landi. Búseta á ekki lengur að vera ráðandi þáttur í atkvæðavægi - það er úrelt fyrirkomulag.

Viðreisn vill jafna atkvæðisréttinn og lögðu þingmenn flokksins fram frumvarp í því skyni á Alþingi haustið 2020. Þar sagði meðal annars: „Jafnt vægi atkvæða er ekki eingöngu mikilvægt til að styrkja lýðræðið og tryggja jafnan rétt borgaranna óháð efnahag, kyni, uppruna eða búsetu. Það er einnig liður í því að auka samkennd, skilning og réttlæti í samfélaginu. Við byggjum ekki upp réttlátt samfélag með því að viðhalda misskiptingu í kosningakerfinu. Einn einstaklingur - eitt atkvæði er sjálfsögð krafa í nútímalegu lýðræðissamfélagi.“

Það er hægt að leiðrétta þetta og það er fremur einfalt. Vonandi verður næsta Alþingi skipað nógu mörgu frjálslyndu og víðsýnu fólki sem hefur kjark og dug til að bæta þetta ójafnræði.

Höfundur er í 16. sæti fyrir Viðreisn í Kraganum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×