Skoðun

Stærsta U-beygjan um helgina

Einar A. Brynjólfsson skrifar

Stjórnmálaflokkar landsins kynna nú hver af öðrum áherslur sínar fyrir næsta kjörtímabil. Fæst af þessum áherslumálum koma á óvart, a.m.k. þeim sem fylgjast vel með stjórnmálum, þó alltaf megi auðvitað búast við einhverju bitastæðu.

Stærstu tíðindin hljóta að vera þau sem urðu á landsfundi Vinstri grænna sem lauk um liðna helgi, en í ályktun fundarins segir m.a.:

Halda þarf áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar. Löngu er tímabært að ný ákvæði um auðlindir í þjóðareign og umhverfis- og náttúruvernd hljóti afgreiðslu Alþingis en einnig þarf að ráðast í tímabærar breytingar á öðrum köflum. Endurskoða þarf mannréttindakafla stjórnarskrárinnar meðal annars með hliðsjón af réttinum til menntunar, heilbrigðis og lífsviðurværis.

Ef stefna flokksins fyrir kosningarnar 2016 og 2017 er skoðuð sést berlega að hér er um algera kúvendingu að ræða, en þá hljómaði stefnan svona:

„Ljúkum þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundinum 2010 og klárum nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs.“

Flokkurinn sem kom að því að setja Stjórnlagaráð á laggirnar gefur nú skít í Stjórnlagaráð. Þau vilja frekar halda áfram með bútasauminn sem hefur viðgengist í tæp 80 ár og hafa þannig lýðræðislegan vilja að engu. Þetta eru sorgleg tíðindi fyrir öll sem vilja að ný stjórnarskrá sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs verði lögfest hér á landi.

Nú er blekkingarleiknum lokið. Vinstri græn hafa hent nýju stjórnarskránni. Getur hugsast að henni hafi verið fórnað fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarf?

Höfundur er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.