Viðskipti innlent

Kafaði ofan í hvað ein­kenni ferðir Ís­­lendinga til Kanarí

Atli Ísleifsson skrifar
Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Niðurstaða könnunarinnar sýnir meðal annars að yngra fólk sæki frekar til Tenerife, en eldra fólk til Gran Canaria.
Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Niðurstaða könnunarinnar sýnir meðal annars að yngra fólk sæki frekar til Tenerife, en eldra fólk til Gran Canaria. HÍ/Getty

„Það er alveg skýrt að fyrir Íslendinga hefur Kanarí fyrst og fremst aðdráttarafl vegna sólarinnar og strandanna. Það er miklu minni áhugi á menningartengdri ferðaþjónustu og söfnin, heldur en ég hafði fyrirfram gert ráð fyrir.“

Þetta segir Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, sem fór fyrir rannsókn á ferðum Íslendinga til Tenerife, Gran Canaria og annarra Kanaríeyja. Þar var meðal annars rannsakað hvað það sé sem hafi einkennt ferðir Íslendinga til Kanaríeyja síðasta áratuginn og hverskonar áfangastaður Kanaríeyjar séu fyrir Íslendinga.

Niðurstöðurnar voru kynntar í grein sem birtist í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál sem kom út í vikunni.

„Ég fór sjálf fyrst til Kanarí árið 2017. Það var nú bara tilviljun að ég ferðaðist þangað, en það kom mér á óvart í framhaldinu að sjá hve mikill fjöldi Íslendinga hafi ferðast til þessa eyja. Í kjölfarið á því fór ég að velta fyrir mér hvað einkenni þessi ferðalög,“ segir Kristín sem vann að greininni í samstarfi við Auði Örnu Arnardóttur og Má Wolfgang Mixa úr HR og Guðbjörtu Guðjónsdóttur, verkefnastjóra hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Notast hafi verið við gögn frá Ferðamálastofu, Hagstofu Kanaríeyja, en einnig svör úr spurningum úr Spurningavagni Félagsvísindastofnunar.

En hverjir eru það sem eru að fara til Kanaríeyja?

Kristín segir íslensku ferðamennina sem þangað sækja vera mjög ólíka. „Ólíkir hópar sækja til Kanarí að vissu leyti á ólíkum tíma árs. Yngra fólk og barnlausa fólkið er að fara á sumrin á meðan eldra fólkið er meira að fara á veturna. Fólk sem komið er á eftirlaun getur auðvitað frekar ferðast á veturna. En við sjáum það að yngra fólkið sækir frekar til Tenerife, en þeir eldri frekar til Gran Canaria.“

Hún segir það alveg skýrt að Íslendingar sæki fyrst og fremst til Kanarí til að komast í sólina og á ströndina. „Þessi mikla áhersla Íslendinga á „sól og strönd“ þegar kemur að ferðum til Kanarí og kom fram í könnuninni kom mér á óvart . Ég hélt að ástæðurnar væru fjölbreyttari. Það er miklu minni áhugi á menningartengdri ferðaþjónustu og söfnin, heldur en ég hafði gert ráð fyrir.

Verð á ferðum hefur einhver áhrif en kannski ekki jafn mikil og mætti búast við. Það er sólin og ströndin sem skýra að stærstum hluta að Íslendingar velja Kanarí sem áfangastað. Skemmtistaðir og möguleiki á að fara að versla voru líka nefndir.

Ástæða þess að margir leita í þetta hlýja loftslag er auðvitað líka út af margvíslegum undirliggjandi sjúkdómum sem fólk hefur og því líður betra í hlýrra loftslagi. Með eldra fólk þá getur verið ákveðinn ávinningur af því.“

Frá Amerísku ströndinni á Tenerife.Getty

50 þúsund árið 2018

Kristín segir mikinn fjölda hafa farið frá Íslandi og til Kanarí. Könnunin nái frá 2009 til 2019. „Sem dæmi voru yfir 50 þúsund farþegar sem fóru frá Íslandi og til Kanarí árið 2018. Þarna spila inn í ákveðnar aðstæður, eins og gott aðgengi að flugi, ódýr fluggjöld hjá WOW sem virtust oft vera undir kostnaðarvirði. Svo voru gjaldeyrishöftin að mestu afnumin 2015, sem leiddi til styrkingar krónunnar.“

En hvort kemur á undan þarna, framboðið á flugi og skipulögðum ferðum til Kanarí eða er það eftirspurnin?

„Það er mjög góð spurning. Frá 2014 sjáum við kúrfuna fara upp. Árin á undan er hún nokkuð stöðug, en svo hækkar þetta stigvaxandi frá 2014. Þá veltir maður fyrir sér hvort þetta sé einhvers konar samspil: Það er áhugi á flugi til Kanarí og flugfélögin sem fjölga ferðum til Kanarí sem eykur þá aftur áhugann.“

Kristín segir það áhugavert að Spánn og einnig þá Kanaríeyjar hafi frá árinu 1990 verið að leggja mikla áherslu á að færa sig frá þessu „sól og strönd-módeli“ – því sem virðist einmitt vera helsta ástæða þess að Íslendingar sæki Kanarí heim. „Áherslur þeirra hafa verið mjög sterkt á menningartengda ferðaþjónustu og að eyjarnar, og Spánn almennt, hafi upp á margt annað að bjóða en sól og strönd. Það virðist ekki skila sér mikið til Íslendinganna.“

Eldfjallið Teide á Tenerife er hæsta fjall Spánar.Getty

Hún segir að rannsóknir hafi einnig sýnt að þessi hreyfanleiki til eyjanna geti falið í sér flæðandi hópa þar sem mörk ferðamanna, aðfluttra, eða vinnandi séu ekki alltaf skýr.

„Þessar ferðir fela í sér alls konar efnahagslega gjörninga, ekki bara eyða í föt og annað slíkt. Íslendingar sem hafa ferðast til Kanarí, margir hafa unnið þarna í tengslum við ferðaþjónustuna. Aðrir hafa sett á fót ýmisskonar fyrirtæki í tengslum við ferðir Íslendinga. Enn aðrir hafa svo keypt sér eignir og leigja jafnvel út til annarra. Það er mjög margt í gangi og þetta eru ekki endilega skýrt afmarkaðir hópar. Fólk fer stundum erlendis sem túristi en síðar flyst það kannski til eyjanna, kaupa sér eignir eða annað slíkt,“ segir Kristín. 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ORIGO
2,21
5
91.268
REITIR
1,15
4
248.100
EIK
0,78
5
128.700
REGINN
0,6
1
235
ARION
0,27
11
106.524

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
BRIM
-1,96
10
296.674
EIM
-1,64
3
99.576
SJOVA
-1,06
9
180.997
HAGA
-1,06
4
56.807
SVN
-1
14
61.697
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.