Körfubolti

Curry-hjónin skilja eftir 33 ára hjónaband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dell og Sonya Curry á leik Golden State Warriors og Portland Trail Blazers í úrslitum Vesturdeildar NBA 2019 þar sem synir þeirra, Stephen og Seth, mættust.
Dell og Sonya Curry á leik Golden State Warriors og Portland Trail Blazers í úrslitum Vesturdeildar NBA 2019 þar sem synir þeirra, Stephen og Seth, mættust. getty/Ezra Shaw

Foreldrar NBA-stjörnunnar Stephens Currys, Dell og Sonya, hafa ákveðið að skilja eftir rúmlega þrjátíu ára hjónaband.

Curry-hjónin hafa búið í sitt hvoru lagi að undanförnu og Sonya sótti um skilnað fyrr í sumar. Þau hafa verið gift síðan 1988.

Sama ár kom fyrsta barn, Stephen, í heiminn. Hann hefur verið ein skærasta stjarna NBA-deildarinnar undanfarin ár, hefur tvisvar sinnum verið valinn verðmætasti leikmaður hennar og þrisvar sinnum orðið meistari með Golden State Warriors.

Bróðir Stephens, Seth, leikur einnig í NBA, með Philadelphia 76ers. Þar leikur hann undir stjórn tengdaföðurs síns, Doc Rivers. Stephen og Seth eiga svo eina systur, Sydel. Hún er í sambandi með körfuboltamanninum Damion Lee, samherja Stephens hjá Golden State.

Dell lék sjálfur í NBA á árunum 1986-2002. Hann var tíu ár í herbúðum Charlotte Hornets en lék einnig með Utah Jazz, Cleveland Cavaliers, Milwaukee Bucks og Toronto Raptors. Eins og synir sínir var Dell mikil skytta.

Sonya spilaði blak í mennta- og háskóla og rak seinna skóla í Charlotte, heimaborg fjölskyldunnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.