Handbolti

Piltarnir keppa um 5.-9. sæti eftir tap fyrir Spánverjum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson var valinn maður leiksins úr íslenska liðinu í kvöld.
Benedikt Gunnar Óskarsson var valinn maður leiksins úr íslenska liðinu í kvöld. Mynd/handbolti.is

Íslenska drengjalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 19 ára og yngri tapaði 32-25 fyrir liði Spánar í milliriðli á EM U19 sem fram fer í Króatíu.

Ísland var án stiga í riðlinum fyrir leikinn og víst að það kæmist ekki áfram í undanúrslit keppninnar eftir naumt tap fyrir Svíþjóð í fyrri leik sínum í milliriðli. Spánn gat aftur á móti farið í undanúrslit með sigri.

Spánverjar voru með yfirhöndina allt frá upphafi í dag og leiddu 16-12 eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik. Íslenska liðið náði aldrei að brúa bilið og juku Spánverjar á forystu sína í upphafi síðari hálfleiks. Sjö marka tap varð að lokum niðurstaðan, 32-25 fyrir Spán.

Spánn fer því ásamt Slóveníu úr milliriðli Íslands í undanúrslit. Svíar fylgja Íslandi hins vegar í fjögurra liða umspil um 5. sæti keppninnar.

Ísland mætir Portúgal í undanúrslitum um 5. sætið í næsta leik klukkan 13:15 á föstudag en Svíar mæta Dönum í hinni viðureigninni.

Mörk Íslands í dag: Benedikt Gunnar Óskarsson 5, Gauti Gunnarsson 5, Guðmundr Bragi Ástþórsson 4, Andri Már Rúnarsson 3, Þorsteinn Leó Gunnarsson 2, Andri Finnsson 2, Arnór Ísak Haddsson 1, Símon Michael Guðjónsson 1, Arnór Viðarsson 1, Jóhannes Berg Andrason 1.

Mörkin eru fengin af handbolti.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×