Skoðun

Ráð­herra rétt­lætir skað­lega þróun

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Það er dapurlegt að horfa upp á Vinstri græn og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra réttlæta þróun sem veldur því að rúmanýting á Landspítala er langt umfram það sem almennt er talið ásættanlegt á bráðasjúkrahúsum.

Í grein sem ég birti hér á Vísi.is á mánudag bendi ég á að fækkun legurýma er „ekki séríslensk þróun og skýrist m.a. af framförum í læknavísindum þar sem meðferðarúrræði færast af legudeildum yfir á dagdeildir“.

Þetta er mikilvægt en breytir því ekki að jafnvel fyrir heimsfaraldur var nýtingarhlutfall legurýma hjá Landspítala gjarnan um og yfir 100%.

Theódór Skúli Sigurðsson, formaður Félags sjúkrahúslækna, bendir á að þetta hafi verið staðan á Landspítalanum í meira en áratug, óháð göngudeildarþjónustu og aukinni tækni.

„OECD-viðmiðin tala um að eðlileg nýting á bráðasjúkrahúsi ætti að vera 85% en allt yfir 90% sé á hættustigi. 100% nýting er skaðleg, slítur út starfsfólki, dregur úr eðlilegum afköstum og kemur í veg eðlilegt svigrúmi spítalans að takast á við faraldra líkt og við erum að upplifa nú,“ skrifar hann.

Þetta vita heilbrigðisráðherra, flokksfélagar hennar og samherjar í ríkisstjórn sem hafa brugðist seint og illa við gagnrýni og neyðarhrópum innan úr heilbrigðiskerfinu en skammast í starfsfólki fyrir að „tala spítalann niður“.

„Það er ekki rétt sem haldið hefur verið fram að hjúkrunarrýmum hafi fækkað undanfarin ár. Þvert á móti hefur þeim fjölgað um samtals 140,“ skrifar ráðherra – en hver hefur haldið því fram að hjúkrunarrýmum hafi fækkað? Það sem skiptir máli er að fjölgun hjúkrunarrýma og uppbygging öldrunarþjónustu hefur ekki haldið í við mannfjöldaþróun og breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Um það getur fjöldi fólks sem þarf að bíða vikum saman á Landspítala eftir plássi á hjúkrunarheimili vitnað.

Sjúklingar og starfsfólk eiga skilið að fjallað sé um þessi mál út frá staðreyndum og að það taki við ríkisstjórn í haust sem setur eflingu heilbrigðiskerfisins í forgang.

Höfundur er þingframbjóðandi Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×