Körfubolti

Elvar með flest stig og hæsta framlagið en liðinu gekk best með Kristófer á gólfinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson var óhræddur að keyra á körfuna í leikjunum en hér skorar hann á móti Dönum í gær.
Elvar Már Friðriksson var óhræddur að keyra á körfuna í leikjunum en hér skorar hann á móti Dönum í gær. fiba.basketball

Íslenska körfuboltalandsliðið tryggði sér sæti í undankeppni HM 2023 með nokkuð sannfærandi sigri á Dönum. Íslenska liðið vann tvo af fjórum leikjum sínum í FIBA bubblunni í Svartfjallalandi og endaði í öðru sæti í riðlinum.

Þessi árangur strákanna þýðir að liðið verður með í undankeppninni í vetur en dregið verður í fjögurra þjóða riðla seinna í þessum mánuðum.

Elvar Már Friðriksson var frábær hjá íslenska liðinu í þessum leikjum og bæði langstigahæstur og langframlagshæstur samanlagt í leikjunum fjórum.

Í leikjunum á móti Svartfjallalandi og Danmörku þá var Elvar með 20,5 stig og 4,5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann skilaði líka framlagi upp á 20 stig í leik.

Elvar skoraði 37 stigum meira en næstu menn íslenska liðsins sem voru þeir Ægir Þór Steinarsson og Tryggvi Snær Hlinason með 45 stig hvor. Ægir var líka með 21 fleiri framlagsstig en Tryggvi sem kom honum næstur.

Tryggvi Snær var með flest fráköst (26 - 6,5 í leik) og flest varin skot (6 - 2,5 í leik) en Ægir Þór gaf flestar stoðsendingar eða 22 sem gera 5,5 í leik. Elvar var með flest stolna bolta eða níu en fimm þeirra komu á móti Dönum í gær.

Það gekk hins vegar best hjá íslenska liðinu þegar Kristófer Acox var inn á vellinum. Þær mínútur vann íslenska liðið með 30 stigum og tapaði því með níu stigum þegar Kristófer var á bekknum.

Næstir í íslenska liðinu í plús og mínus voru þeir Tryggvi Snær og Elvar Már með +25 en Ægir var rétt á eftir með +23. Þessir fjórir voru langefstir í þessum tölfræðiþætti.

Tryggvi Snær Hlinason búinn að koma boltanum á hinn eldsnögga Elvar Má Friðriksson.fiba.basketball
 • Flest stig hjá Íslandi í annarri umferð forkeppni HM 2023:
 • Elvar Már Friðriksson 82
 • Ægir Þór Steinarsson 45
 • Tryggvi Snær Hlinason 45
 • Kári Jónsson 43
 • Kristófer Acox 35
 • Sigtryggur Arnar Björnsson 26
 • -
 • Flest fráköst hjá Íslandi í annarri umferð forkeppni HM 2023:
 • Tryggvi Snær Hlinason 26
 • Kristófer Acox 21
 • Hörður Axel Vilhjálmsson 18
 • Kári Jónsson 12
 • Elvar Már Friðriksson 10
 • -
 • Flestar stoðsendingar hjá Íslandi í annarri umferð forkeppni HM 2023:
 • Ægir Þór Steinarsson 22
 • Elvar Már Friðriksson 18
 • Hörður Axel Vilhjálmsson 16
 • Kári Jónsson 7
 • Ólafur Ólafsson 5
 • -
 • Hæsta framlag hjá Íslandi í annarri umferð forkeppni HM 2023:
 • Elvar Már Friðriksson 80
 • Tryggvi Snær Hlinason 59
 • Ægir Þór Steinarsson 58
 • Kári Jónsson 48
 • Kristófer Acox 38
 • Hörður Axel Vilhjálmsson 29
 • -
 • Hæsta plús og mínus hjá Íslandi í annarri umferð forkeppni HM 2023:
 • Kristófer Acox +30
 • Tryggvi Snær Hlinason +25
 • Elvar Már Friðriksson +25
 • Ægir Þór Steinarsson +23
 • Hörður Axel Vilhjálmsson +12
 • Kári Jónsson +11Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.