Skoðun

Hún bíður eftir því að vera myrt

Tanja Teresa Leifsdóttir skrifar

Ákall til íslenskra stjórnvalda.

Fyrir þremur vikum var ég stödd á ráðstefnu í Munchen. Á ráðstefnunni tók til máls ung kona, tveimur árum eldri en ég, Zarifa Ghafari, fyrsti kvenkyns borgarstjóri Afghanistan. Hún er borgarstjóri Maydan í Wardak-héraði. Hún hefur barist fyrir auknu lýræði, mannréttindum og réttindum kvenna. Hún stofnaði einnig “Afghan Women Development and Help Foundation” sem hefur starfað í þágu afganskra kvenna. Hún hefur þurft að þola morðhótanir og áreiti, hún var þolandi skotárásar í mars á síðasta ári, og núna bíður hún eftir því að hún verði myrt af Talibönum.

Hún bíður eftir því að vera myrt.

Ung kona sem hefur helgað lífi sínu að berjast fyrir réttindum kvenna, bíður eftir því að vera myrt.

Við á Íslandi stærum okkur af því að Ísland sé eitt feminískasta land í heimi, að Ísland hafi verið númer eitt hvað varðar kvenréttindi hjá Alþjóðaefnahagsráðinu. En hvað þýðir sá feminísmi ef við berjumst ekki í þágu kvenna um allan heim?

Málað hefur verið yfir búðarglugga með myndum af konum, konur fela skilríki og diplómur vegna þess að þær vita að þeim verður refsað fyrir það, stúlkur verða sendar nauðugar í „hjónaband” - lífstíð af nauðgun og þrælkun.

Ég vitna í Brynju Huld Óskarsdóttir og Twitter-þráð hennar um ástandið í Afghanistan:

“Þegar ég starfaði í Afganistan á vegum íslensku friðargæslunnar var mikil áhersla á að auka hlut kvenna, koma sjónarmiðum kvenna á framfæri og vinna samkvæmt SÞ ályktun 1325, um konur frið og öryggi. Í dag eru það þessar konur sem ég er hræddust um.” Brynja bendir einnig á það að “jafnrétti kynjanna, útrýming á kynbundnu ofbeldi, heilsa og menntun kvenna og stúlkna, efnahagsleg valdefling kvenna” sé helsta áhersla Íslands í utanríkismálum.

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefur eftir sér að til greina komi að “taka við fleiri Afgönum en ella.”

Það er ekki nóg. Það er ekki nóg að það komi til greina. Fleiri en ella er ekki nóg. Íslenskum stjórnvöldum ber að standa með Afgönum á þessari neyðarstundu, að forgangsraða Afgönum og málefnum kvenna í utanríkisstefnu sinni, að gera allt sem í krafti þeirra stendur að hjálpa fólki í neyð.

Við getum ekki beðið og fylgst með fleira fólki sem barist hefur fyrir sínum réttindum og réttindum kvenna, að bíða eftir því að vera myrt.

Mæli með að lesa þráðinn hennar Brynju hér.

Höfundur er stjórnmálafræðingur og feminista.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×