Körfubolti

Þegar Jason Kidd frestaði jólunum

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Jason Kidd var þjálfari Milwaukee Bucks frá 2014-2018. Hér sést hann ræða við Giannis Antetokounmpo.
Jason Kidd var þjálfari Milwaukee Bucks frá 2014-2018. Hér sést hann ræða við Giannis Antetokounmpo. EPA/TANNEN MAURY CORBIS

Þrátt fyrir að nú sé NBA tímabilið í hléi þá hefur nýútgefin ævisaga NBA meistarans Giannis Antetokounmpo sett nafn nýráðins þjálfara Dallas Mavericks, Jason Kidd í sviðsljósið.

Kidd var þjálfari Milwaukee Bucks á árunum 2014-2018 þegar Giannis var að stíga sín fyrstu skref í NBA deildinni og hefur bókin varpað ansi dökku ljósi á sumar af aðferðum þjálfarans.

Þar er til að mynda farið yfir sögu af því þegar að Milwaukee tapaði á Þorláksmessu fyrir Charlotte. Í klefanum eftir leik spurði Kidd fyrirliðann, Georgíumanninn Zaza Pachulia hvort liðið ætti skilið að vera í fríi á jólunum eftir svona frammistöðu. 

Pachulia benti á að leikmenn hefðu gert áætlanir um að eyða hátíðunum með fjölskyldum sínum. Kidd lét þó ekki segjast og skipaði mönnum að mæta á æfingu daginn eftir, á aðfangadag klukkan níu um morguninn. Þar með eyddu leikmenn jólunum hlaupandi á milli veggja í æfingasal liðsins.

Kidd, sem var á ferlinum valinn 10 sinnum í stjörnuleik NBA deildarinnar hefur átt sínar skuggahliðar á ferlinum.

Hann játaði á sig heimilisofbeldi árið 2001 og var einnig handtekinn fyrir akstur undir áhrifum árið 2012.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×