Handbolti

Norsku stelpurnar hans Þóris spila enn og aftur um verðlaun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Norska liðið fagnar sigrinum á Ungverjalandi.
Norska liðið fagnar sigrinum á Ungverjalandi. getty/Dean Mouhtaropoulos

Norska kvennalandsliðið í handbolta sem Þórir Hergeirsson stýrir er komið í undanúrslit á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir sigur á Ungverjalandi, 26-22.

Þórir er á sínu fjórtánda stórmóti sem þjálfari norska liðsins og á þrettán þeirra hefur það spilað um verðlaun. Noregur varð Ólympíumeistari undir stjórn Þóris 2012 en lenti í 3. sæti 2016.

Eftir góða byrjun Ungverja náðu Norðmenn undirtökunum um miðbik fyrri hálfleiks og leiddu með tveimur mörkum að honum loknum, 12-10.

Eftir góðan kafla í seinni hálfleik náði Ungverjaland tveggja marka forskoti, 17-19. En Noregur svaraði með 8-2 kafla og komst fjórum mörkum yfir, 25-21. Sami munur var svo á liðunum þegar uppi var staðið, 26-22. 

Katharine Lunde átti hvað stærstan þátt í að Noregur seig fram úr undir lokin en hún varði fimm af þeim átta skotum sem hún fékk á sig eftir að hún kom inn á.

Kari Brattset Dale skoraði sjö mörk fyrir Noreg og og Henny Reinstad fjögur. Szandra Szollosi-Zacsik var markahæst í ungverska liðinu með fimm mörk.

Í undanúrslitunum mætir Noregur Rússlandi sem vann Svartfjalland í fyrsta leik dagsins, 26-32.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.