Körfubolti

Middleton bestur þegar mest á reyndi og allt jafnt í úrslitaeinvíginu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Khris Middleton var aðalmaðurinn hjá Milwaukee Bucks í sigrinum á Phoenix Suns í nótt.
Khris Middleton var aðalmaðurinn hjá Milwaukee Bucks í sigrinum á Phoenix Suns í nótt. getty/Jonathan Daniel

Khris Middleton skoraði fjörutíu stig þegar Milwaukee Bucks jafnaði metin í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfubolta með 109-103 sigri á Phoenix Suns í nótt.

Staðan í einvíginu er nú 2-2 en allir leikirnir í því hafa unnist á heimavelli. Fimmti leikur liðanna fer fram í Phoenix aðfaranótt laugardags.

Middleton hafði haft frekar hægt um sig í úrslitaeinvíginu en átti frábæran leik í nótt. Sem fyrr sagði skoraði hann fjörutíu stig, þar af tíu í röð undir lok leiks. Milwaukee var sex stigum undir fyrir hann, 76-82, en var sterkari aðilinn þegar mest var undir.

Giannis Antetokounmpo, sem skoraði samtals 83 stig í öðrum og þriðja leiknum, var með 26 stig, fjórtán fráköst og átta stoðsendingar í leiknum í nótt auk þess sem hann varði skot frá Deandre Ayton á ögurstundu.

Brook Lopez skoraði fjórtán stig og Jrue Holiday þrettán. Pat Connaughton kom með ellefu stig og níu fráköst af bekknum.

Eftir slaka frammistöðu í síðasta leik var Devin Booker sjóðheitur í nótt. Hann skoraði 42 stig og hitti úr sautján af 28 skotum sínum. Hann lenti hins vegar í villuvandræðum og spilaði lítið í 4. leikhluta.

Chris Paul skoraði tíu stig og gaf sjö stoðsendingar en hitti illa og tapaði boltanum fimm sinnum. Jae Crowder var með fimmtán stig og Ayton með sex en tók sautján fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Milwaukee hitti illa fyrir utan (24,1 prósent) en tapaði boltanum aðeins fimm sinnum en Phoenix sautján sinnum. Milwaukee skoraði 24 stig eftir tapaða bolta hjá Phoenix.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×