Körfubolti

NBA dagsins: Forðuðust að lenda í holu sem ekkert lið hefur komist upp úr

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis Antetokounmpo hefur skorað samtals 83 stig í síðustu tveimur leikjum í úrslitum NBA-deildarinnar.
Giannis Antetokounmpo hefur skorað samtals 83 stig í síðustu tveimur leikjum í úrslitum NBA-deildarinnar. getty/Justin Casterline

Giannis Antetokounmpo skoraði 41 stig þegar Milwaukee Bucks vann Phoenix Suns, 120-100, í fyrsta heimaleik liðsins í úrslitum NBA-deildarinnar síðan 1974.

Með sigrinum kom Milwaukee í veg fyrir að lenda 3-0 undir og lenda ofan í holu sem ekkert lið í úrslitum NBA hefur komist upp úr. Staðan í einvígi liðanna er nú 2-1 og Milwaukee getur jafnað metin með sigri í fjórða leiknum á miðvikudaginn.

Líkt og í síðasta leik fór Giannis á kostum í nótt. Grikkinn skoraði 41 stig, tók þrettán fráköst og gaf sex stoðsendingar. 

Hann er fyrsti leikmaðurinn síðan LeBron James 2016 til að skora fjörutíu stig eða meira í tveimur leikjum í röð í úrslitum NBA. Giannis er jafnframt aðeins annar leikmaðurinn í sögu úrslitanna til að skora yfir fjörutíu stig og taka tíu fráköst eða meira í tveimur leikjum í röð. Shaquille O'Neal gerði það í fyrstu tveimur leikjunum í úrslitaeinvígi Los Angels Lakers og Indiana Pacers fyrir 21 ári.

„Við vissum hvers konar leikur þetta yrði. Við vissum að við værum komnir ofan í holu ef við töpuðum,“ sagði Giannis.

Hann hitti úr fjórtán af 23 skotum sínum utan af velli og þrettán af sautján vítaskotum sínum. Giannis tók fleiri vítaskot en allir leikmenn Phoenix til samans, eitthvað sem Monty Williams, þjálfari liðsins, benti á eftir leik.

„Ég ætla ekki að kvarta opinberlega yfir villunum. Geri það ekki. En þú getur séð það, við fengum sextán víti en einn leikmaður sautján,“ sagði Williams.

Klippa: NBA dagsins: 12. júlí

Milwaukee fékk miklu betra sóknarframlag frá Jrue Holiday en í síðasta leik og það vóg þungt. Hann skoraði 21 stig, gaf níu stoðsendingar og setti niður fimm þriggja stiga skot. Khris Middleton skoraði átján stig og Brook Lopez og Bobby Portis ellefu stig hvor.

Chris Paul skoraði nítján stig fyrir Phoenix og gaf níu stoðsendingar. Devin Booker átti erfitt uppdráttar; skoraði tíu stig og hitti aðeins úr þremur af fjórtán skotum sínum. Deandre Ayton skoraði átján stig en spilaði aðeins 24 mínútur vegna villuvandræðna.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá brot úr leik Milwaukee og Phoenix frá því í nótt.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×