Fótbolti

PSG raðar inn stjörnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sergio Ramos er á leið til Parísar.
Sergio Ramos er á leið til Parísar. EPA-EFE/ANDY RAIN

Forráðamenn franska fótboltaliðsins Paris Saint-Germain eru í vígahug eftir að stórveldið sá eftir franska meistaratitlinum í hendur Lille í vor. Þrír leikmenn munu semja við félagið í vikunni samkvæmt erlendum miðlum.

Fréttamaðurinn Fabrizio Romano fullyrti í gær að Spánverjinn Sergio Ramos muni skrifa undir tveggja ára samning við franska liðið á næstu tveimur vikum, franski miðillinn L'Équipe sagði svipaða sögu. Samningur Ramos við Real Madrid, hvar hann hefur verið á mála frá árinu 2004, rann út um mánaðarmótin síðustu og hefur hann leitað sér nýs félags síðan. Manchester United hefur verið nefnt til sögunnar í því samhengi en nú stefnir allt í að hann haldi til Parísar.

Annar leikmaður sem er laus á samningi, ítalski markvörðurinn Gianluigi Donnarumma, ku þá einnig vera á leið til frönsku höfuðborgarinnar eftir að samningur hans við AC Milan rann út. Áhugavert verður að sjá hvaða áhrif það hefur á stöðu Keylor Navas hjá liðinu en Spánverjinn Sergio Rico er einnig á mála hjá PSG, líkt og Alphonse Areola, sem lék á láni hjá Fulham í ensku úrvalsdeildinni í fyrra.

PSG mun þá kaupa Marokkómanninn Achraf Hakimi frá Inter Milan en sá hefur einnig verið orðaður við Chelsea á Englandi. Báðir munu þeir skrifa undir samning til ársins 2026.

PSG hefur þegar fengið einn leikmann í sínar raðir í sumar en Georginio Wijnaldum kom frítt til félagsins frá Liverpool eftir að samningur hans rann út. Alessandro Florenzi og Moise Kean eru farnir frá félaginu eftir að hafa verið á láni á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×