Körfubolti

Öskur Grikkjans í nóttinni og einvígið jafnt

Sindri Sverrisson skrifar
Clint Capela lagðist hálfpartinn ofan á Giannis Antetokounmpo sem meiddist eftir að hafa stokkið upp í baráttu um boltann.
Clint Capela lagðist hálfpartinn ofan á Giannis Antetokounmpo sem meiddist eftir að hafa stokkið upp í baráttu um boltann. AP/Curtis Compton

Giannis Antetokounmpo veinaði af sársauka áður en hann var studdur af velli í tapi Milwaukee Bucks gegn Atlanta Hawks, 110-88, í úrslitum austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt.

Atlanta lék án sinnar skærustu stjörnu, Trae Young, sem að meiddist við að stíga óvart á dómara í leik þrjú í einvíginu. Án Young náði Atlanta engu að síður að jafna metin í einvíginu, 2-2.

Nú er það Milwaukee sem gæti þurft að spjara sig án sinnar skærustu stjörnu. Ekkert hefur verið staðfest varðandi meiðsli Antetokounmpo, sem tvívegis hefur verið valinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar, en Grikkinn meiddist í hné í þriðja leikhluta og var augljóslega þjáður.

Leit út fyrir að vera ansi slæmt

Mike Budenholzer, þjálfari Milwaukee, sagði að það yrði að koma í ljós í dag hve alvarleg meiðslin væru. „Við tökum því sem að kemur. Við metum þetta. Við erum með frábært lið, frábæran hóp… Strákarnir undirbúa sig og þeir verða tilbúnir,“ sagði Budenholzer.

„Ég heyrði hann öskra,“ sagði Khris Middleton, liðsfélagi Antetokounmpo, og Jrue Holiday bætti við: „Bara byggt á því hvernig hann greip um fótinn þá leit þetta út fyrir að vera ansi slæmt.“

Antetokounmpo yfirgaf völlinn í stöðunni 62-52 fyrir Atlanta eftir að hafa byrjað seinni hálfleik af krafti og skorað átta af 14 stigum sínum í leiknum.

Atlanta var 51-38 yfir í hálfleik. Með Antetokounmpo innanborðs leit Milwaukee út fyrir að ætla að gera gott áhlaup en eftir að hann fór af velli var aldrei spurning hvernig færi.

Án Youngs var Lou Williams stigahæstur hjá Atlanta með 21 stig og Bogdan Bogdanovic skoraði 20. Holidday var stigahæstur hjá Milwaukee með 19 stig og Middleton skoraði 16.

Liðin mætast næst í Milwaukee annað kvöld en vinna þarf fjóra leiki til að komast í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar, gegn Phoenix Suns eða LA Clippers sem mætast í kvöld, eða kl. 1 eftir miðnætti að íslenskum tíma í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×