Körfubolti

Clippers enn á lífi eftir stórleik George

Sindri Sverrisson skrifar
Paul George keyrir að körfu Phoenix Suns en Devin Booker er til varnar.
Paul George keyrir að körfu Phoenix Suns en Devin Booker er til varnar. AP/Matt York

Los Angeles Clippers eiga enn möguleika á NBA-meistaratitlinum í körfubolta eftir sigur gegn Phoenix Suns í úrslitum vesturdeildarinnar í nótt, 116-102.

Phoenix gat klárað einvígið með sigri en er nú 3-2 yfir og neyðist til að fara aftur til Los Angeles til að spila sjötta leik einvígisins á miðvikudagskvöld.

Clippers léku enn án Kawhi Leonard vegna meiðsla og miðherjinn Ivica Zubac missti af sínum fyrsta leik á tímabilinu, vegna hnémeiðsla.

Paul George sá hins vegar til þess að Clippers landaði sigri og að möguleikinn á enn einni endurkomu liðsins væri áfram til staðar, en Clippers hefur lent 2-0 undir í öllum einvígum sínum til þessa.

George skoraði 41 stig, þar af 20 í þriðja leikhlutanum, og Reggie Jackson bætti við 23. George hitti úr 15 af 20 skotum sínum, þar af þremur af sex utan þriggja stiga línunnar, og tók 13 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

„Ef að þeir áttu að vinna þessa seríu þá ætluðum við að láta þá hafa fyrir því. Þannig hugsum við. Við ætluðum ekki að leggjast í kör. Þeir þurfa að hafa fyrir því að vinna okkur,“ sagði George.

Phoenix lenti mest 15 stigum undir í fyrri hálfleik en náði forystunni með þriggja stiga körfu frá Chris Paul í þriðja leikhluta, 62-61. Clippers skoruðu næstu tíu stig. Þannig svöruðu þeir áhlaupum Phoenix út leikinn og lönduðu sigri.

Devin Booker var stigahæstur hjá Phoenix með 31 stig og Chris Paul skoraði 22 og átti átta stoðsendingar.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×