Handbolti

Rut valin best: Sterkar stelpur sem ég er að spila með

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rut Arnfjörð Jónsdóttir átti magnað tímabil með KA/Þór en hún var að spila í fyrsta sinn á Íslandi síðan árið 2008.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir átti magnað tímabil með KA/Þór en hún var að spila í fyrsta sinn á Íslandi síðan árið 2008. Skjámynd/S2 Sport

KA/Þórs leikmaðurinn Rut Arnfjörð Jónsdóttir var hlaðin verðlaunum eftir lokahóf HSÍ í dag en hún var kosin besti leikmaður Olís deildar kvenna af bæði leikmönnum og þjálfurum deildarinnar. Rut var einnig kosin besti sóknarmaðurinn.

Rut hjálpaði KA/Þórs liðinu að verða bæði deildarmeistari og Íslandsmeistari á hennar fyrsta tímabili á Akureyri og hennar fyrsta tímabili síðan hún kom heim úr atvinnumennsku.

Guðjón Guðmundsson hitti Rut í dag eftir að hún hafði fengið verðlaunin sín afhent. Hann spurði hana hvað hefði staðið upp úr í vetur.

„Það er náttúrulega Íslandsmeistaratitilinn og stemmningin sem varð í lokin þegar við unnum þann titil. Auðvitað var allt tímabilið frábært og mikil liðsheild hjá KA/Þór. Það var frábært,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir við Gaupa.

Klippa: Rut: Við erum með mikið af ungum stelpum sem geta bætt sig mikið

„Það gekk ótrúlega vel en líka hjá öllu liðinu og það var ekki bara ég. Það eru sterkar stelpur sem ég er að spila með líka,“ sagði Rut.

„Næsta tímabilið verður eflaust erfiðara. Nú vorum við nýtt lið og ekki miklar væntingar fyrir tímabilið. Það verður spennandi á næsta ári. Við erum með mikið af ungum stelpum sem geta bætt sig mikið og ég vona að við verðum jafnöflugar á næsta tímabili,“ sagði Rut en átti hún von á þessu góða gengi?

„Nei eiginlega ekki ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég bjóst ekki við því að það myndi ganga svona rosalega vel fyrsta tímabilið en það var algjör bónus og vonandi höldum við þessu áfram,“ sagði Rut. Hér fyrir ofan má sjá viðtal Gaupa við hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×