Viðskipti innlent

Nýr banki fer í beina sam­­keppni við stóru við­­skipta­bankana

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Tryggvi Björn Davíðs­son (vinstri) og Haukur Skúlason (hægri) eru stofnendur Indó banka.
Tryggvi Björn Davíðs­son (vinstri) og Haukur Skúlason (hægri) eru stofnendur Indó banka. vísir/aðsend

Nýr banki er við það að hefja starf­semi á Ís­landi og ætlar sér í beina sam­keppni við stóru banka landsins um við­skipta­vini. Hann verður að öllu leyti rekinn á raf­rænu formi, mun ekki halda úti einu einasta úti­búi en telur sig munu breyta ís­lenskum banka­markaði til fram­tíðar.

Bankinn ber heitið Indó og verður fyrsti svo­kallaði á­skor­enda­bankinn á Ís­landi. Það er ný­yrði yfir banka fjár­tækninnar sem leggja á­herslu á raf­rænan rekstur, kannski helst í gegnum snjall­for­rit.

„Bankinn verður ein­faldur og þægi­legur sem okkur finnst vera algjör lykil­at­riði,“ segir Haukur Skúla­son, annar stofn­enda bankans. Með honum í verk­efninu er Tryggvi Björn Davíðs­son og hafa þeir báðir mikla reynslu úr banka­geiranum; störfuðu lengi hjá Íslandsbanka og Tryggvi Björn einnig hjá bönkum í Bret­landi.

„Við sáum tæki­færi á markaðnum hér fyrir svona á­skor­enda­banka sem hafa verið að skjóta upp kollinum í út­löndum með góðum árangri,“ segir Haukur. Verk­efnið hefur verið í pípunum í rúm tvö ár og er nú allt að taka á sig mynd – stefnan er að hefja starf­semi fyrir prufu­hóp á síðari hluta ársins og vonandi að opna reksturinn fyrir öllum sem vilja strax á næsta ári.

Haukur segir að um 180 milljónum hafi verið safnað í verk­efnið á þessum tveimur árum. Þar af hafi lang­mest farið í alls konar leyfis­veitingar og önnur grund­vallar­at­riði. Á bak við verk­efnið standa ýmsir fjár­festar, þar á meðan Kevin Laws, einn stofn­enda og for­stjóri stærstu banda­rísku engla­fjár­festa­sam­takanna Angel list.

Davíð og Golíat

Það eru sjaldan mikil tíðindi af sam­keppni á banka­markaðinum. Banka­geirinn er heldur stöðugur og úti­lokandi; hér á landi starfa þrír stórir bankar, Ís­lands­banki, Lands­bankinn og Arion banki, sem voru stofnaðir eftir hrun á grunni mun eldri banka. Við þá bætist svo einn minni en mun sér­hæfðari fjár­festingar­banki, Kvika, sem er einnig stofnaður á grunni ýmissa eldri fjár­mála­stofnana.

Og við flóruna bætist svo Indó á næstunni. Hann verður að flokkast sem smærri banki eins og Kvika en ó­líkt henni mun Indó ekki sér­hæfa sig í fjár­festingum eða eigna­stýringu heldur fara í beina sam­keppni við stóru bankana um korta­reikninga, launa­reikninga og sparnaðar­reikninga al­mennings.

Það er þó á brattann að sækja fyrir Indó því sam­kvæmt rann­sóknum eru Ís­lendingar til að mynda þre­falt lík­legri til að skilja við maka sinn heldur en að skipta um banka. Ís­lendingar virðast með ein­dæmum í­halds­samir þegar kemur að þessu en til saman­burðar eru Svíar fjór­falt lík­legri til að skipta um banka en Ís­lendingar.

Haukur er þrátt fyrir þetta mjög bjart­sýnn: „Það hafa verið gerðar ýmsar kannanir á þessu undan­farið og það bendir allt til þess að neyt­endur séu mjög já­kvæðir og opnir fyrir nýjum aðilum á banka­markaðinum.“

Hann telur Indó þá hafa ýmsa kosti fram yfir stóru bankana bæði í innri rekstri og þjónustu við við­skipta­vini.

Undanfarin ár hefur verið mjög greini­leg þróun meðal stóru bankana í þá átt að færa rekstur sinn yfir á raf­rænt form. Úti­búum, gjald­kerum og öðru starfs­fólki bankanna fækkar ört og við hlut­verki þeirra taka öpp og heima­bankar. Þetta virðist þó vera þróun sem bankarnir taka í nokkrum skrefum og er jafn­vel að­eins komin hálfa leið.

Sjá einnig: Tólf sagt upp hjá Ís­lands­banka.

Sjá einnig: Uppsagnir hjá Arion banka.

Sjá einnig: Uppsagnir hjá Lands­bankanum.

Indó tekur þetta þó alla leið og verður að öllu leyti raf­rænn. Það er vopnið sem litli bankinn telur sig geta keppt við risana með (auk nokkurra annarra þó).

Veist alltaf hvað gert er við peninginn þinn

Það gefur auga leið að kostnaður við reksturinn verður marg­falt minni þegar ekki þarf að reka úti­bú og greiða fjölda starfs­fólks til að þjónusta við­skipta­vini.

„Við höfum verið með fimm starfs­menn með okkur auk nokkurra ráð­gjafa. Þetta er gríðar­lega öflugt teymi sem hefur komið að því að þróa þetta módel með okkur,“ segir Haukur.

Raf­rænt rekstrar­form sé einnig hentugt fyrir við­skipta­vini; það verður skil­virkara og að­gengi­legra með þægi­legu við­móti í appi.

Haukur nefnir þó annan kost sem Indó mun hafa fram yfir hina við­skipta­bankana: „Þú veist hvað við gerum við peningana þína.“

Hann út­skýrir þetta nánar; Indó mun ekki ráð­stafa því fjár­magni sem við­skipta­vinir þeirra leggja inn á reikninga bankans með fjár­festingum, við­skiptum eða lánum til annarra við­skipta­vina, heldur geyma allan peninginn hjá Seðla­banka Ís­lands.

„Okkur finnst að fólk eigi rétt á að vita hvað er gert við peninginn sem það leggur inn á reikninginn sinn. Hjá okkur verður hægt að fylgjast alveg með því hvert peningurinn fer og hvað er gert við hann. Hann verður líka að fullu ríkis­tryggður, óháð upp­hæð, sem er ó­líkt hinum bönkunum,“ segir Haukur.

Indó ætlar sér einnig að bjóða betri vaxta­kjör og hagstæðari þjónustugjöld en hinir bankarnir.

Tólf til fjórtán hundruð hafa skráð sig í Indó

Indó mun hefja starf­semi sína í lok sumars eða byrjun hausts fyrir af­markaðan prufu­hóp. Haukur segir að fólk hafi skráð sig á lista hjá bankanum og hleypt verði inn af honum í nokkrum hollum til að prufu­keyra við­skipta­módelið.

Um tólf til fjór­tán hundruð manns hafa skráð sig í þann hóp og vonast Haukur til að bankinn verði búinn að taka við þeim öllum í vetur og opni svo fyrir al­menning vonandi sem fyrst á næsta ári.

Því gæti verið stutt í að lands­lagið breytist all­veru­lega í ís­lensku banka­kerfi, því Indó gæti auð­vitað ýtt við stóru bönkunum ef vel gengur.

Stórar breytingar fram undan á banka­kerfinu

Vísir ræddi við Evu Björk Guð­munds­dóttur, for­mann Sam­taka fjár­tækni­fyrir­tækja á Ís­landi, í fyrra um fjár­tækni­banka. Hún reifaði þar þróun banka­markaðarins er­lendis, þar sem fjár­tækni­fyrir­tæki væru að koma sterk inn með staf­ræna banka.

Þar sagði hún meðal annars:

„Við erum þegar að sjá víðs vegar um Evrópu fjár­tækni­fyrir­tæki eða á­skor­enda­banka á borð við Monzo og Re­volut eru að ryðja sér til rúms og tækni­risar eins App­le og Goog­le eru á hrað­leið inn í banka­geirann sem koma til með að gjör­breyta lands­laginu. Ef bankarnir hreyfa sig ekki með breytingunum þá mun starfs­fólk jafn­vel á endanum snúa sér til þeirra sem ætla sér að verða leiðandi afl í fjár­mála­geira fram­tíðarinnar. Það er því jafn mikil­vægt fyrir bankann sem og fólkið sem að vinnur í þessum geira að mæta tækni­breytingum með já­kvæðum og opnum hug.“

Það er ekki annað að sjá en að þessi þróun sé hafin á Ís­landi með staf­ræna bankanum Indó.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.