Körfubolti

Harden gæti snúið aftur í nótt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
James Harden ætlar að reyna taka þátt í leik Brooklyn Nets og Milwaukee Bucks í nótt. Kyrie Irving verður hins vegar ekki með vegna meiðsla.
James Harden ætlar að reyna taka þátt í leik Brooklyn Nets og Milwaukee Bucks í nótt. Kyrie Irving verður hins vegar ekki með vegna meiðsla. Jim Davis/Getty Images

Brooklyn Nets og Milwaukee Bucks mætast í nótt. Um er að ræða fimmta leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta. Staðan er 2-2 í einvíginu og Bucks gæti því komist í góða stöðu með sigri.

Þegar Nets sótti James Harden frá Houston Rockets í vetur varð liðið strax líklegt til afreka. Nets þá komið með sannkallað stórskotalið með þá Kyrie Irving, Kevin Durant og áðurnefndan Harden innanborðs.

Það gekk á ýmsu í vetur en Durant hefur misst mikið úr vegna meiðsla, sama má segja um Irving og Harden. Þá lagði LaMarcus Aldridge skóna á hilluna skömmu eftir að hafa gengið til liðs við Brooklyn vegna hjartagalla.

Liðið endaði þó í 2. sæti Austurdeildarinnar og virtist komið á gott ról þegar úrslitakeppnin fór af stað.

Í fyrsta leik einvígisins meiddist Harden aftan í læri en stefnir á að vera með í nótt, hvort það gangi eftir er þó alls óvíst. Í síðasta leik meiddist svo Irving og allt í einu virtist sem Durant yrði eina leikfæra stórstjarnan fyrir leik næturinnar. Hann tók því með stóískri ró.

„Ég reikna með að þurfa að gera allt sjálfur, eins og ég geri alltaf,“ sagði kíminn Durant á blaðamannafundi fyrr í dag. 

Nú er ljóst að Harden ætlar sér að reyna spila. Það verður að koma í ljós hvort lærið haldi og hvort það dugi til sigurs.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×