Umfjöllun og viðtöl: Valur - KA 33-28 | Val­sarar síðasta liðið inn í undan­úr­slit

Andri Már Eggertsson skrifar
visir-img
vísir/elín björg

Valur vann þægilegan fimm marka sigur á KA í síðasta leik 8-liða úrslita Olís-deildar karla í handbolta. Valur vann einvígið samtals með 9 marka mun og fór því örugglega inn í undanúrslitin.

KA menn þurftu að vinna niður fjögurra marka forskot þegar leikurinn var flautaður á. Þeir byrjuðu með aukamann í sókn sem gekk vel hjá þeim.

Mikill hraði og góður sóknarleikur hjá báðum liðum var það sem einkenndi þennan fyrri hálfleik. Jónatan Magnússon talaði um fyrir leik að hann vildi hægja á Valsmönnum sem var svo sannarlega ekki raunin.

Martin Nagy kom inn á þegar tæplega korter var liðið á leikinn þá hafði Einar Baldvin ekki varið skot og því kominn tími á breytingar.

Martin Nagy múraði fyrir markið í fyrri hálfleik og varði 7 bolta sem skilaði honum 50 prósent markvörslu.

Það dróg til tíðinda á 19 mínútu þegar Patrekur Stefánsson skoraði en Agnar Smári Jónsson fór í andlitið á honum og dómararnir mátu það sem beint rautt spjald.

Í stöðunni 14-14 gerðu Valsmenn tvö mörk í röð, þeir héldu því forskoti út fyrri hálfleikinn sem endaði 18-16.

Valur byrjaði af talsvert meiri krafti í síðari hálfleik sem gerði það að verkum að þeir voru komnir 6 mörkum yfir 23-17.

Þá var brekkan orðin of brött fyrir KA. Valur gerðu vel í að halda sjó út allan leikinn og var snemma í síðari hálfleik orðið ljóst að Valur væri að fara áfram í undanúrslitin.

Leikurinn endaði með 5 marka sigri Vals 33-28.

Af hverju vann Valur?

Valur voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, þeir byrjuðu síðan síðari hálfleikinn frábærlega þar sem þeir keyrðu yfir KA og komust snemma 6 mörkum yfir.

Valur lagaði varnarleikinn í síðari hálfleik og fengu þeir á sig 12 mörk sem var 4 minna en í fyrri hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Martin Nagy kom inn á þegar tæplega korter var liðið af leiknum og hreinlega læsti sjoppunni. Martin varði 7 bolta í fyrri hálfleik og 13 í heildina.

Tumi Steinn Rúnarsson átti góðan leik í kvöld. Tumi skilaði 7 mörkum ásamt því að vera skapandi og dreifa spilinu vel.

Hvað gekk illa?

KA menn fóru illa að ráði sínu í fyrri hálfleik þeir voru að klikka á mikið af dauðafærum úr horninu sem reyndist dýrkeypt spilandi með aukamann í sókn.

Þeir réðu oft illa við hraðan í Valsliðinu sem fengu mikið af mörkum úr harðahlaupum ásamt skotum yfir allan völlinn þegar KA spilaði með aukamann.

Hvað gerist næst?

Tímabilinu er lokið fyrir KA. Vestmannaeyjar er næsti áfangastaður Vals þar sem þeir mæta ÍBV á þriðjudaginn kemur klukkan 18:00.

Við höfum verið í vandræðum með ÍBV í vetur svo þetta verður hörku einvígi

Snorri er kominn í undanúrslitin og mætir ÍBVVísir/Vilhelm

„Það var meiri gæði í okkar liði. KA gáfu okkur góðan leik en við vorum heilt yfir betri. Við vissum að þeir myndu koma af krafti sem mér fannst við leysa vel."

„Þeir spiluðu með aukamann sem gekk vel hjá þeim sem gerði okkur stundum erfitt fyrir. Martin Nagy kom síðan með góða innkomu í markinu," sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals.

Einar Baldvin byrjaði í markinu en eftir korter breytti Snorri Steinn um markmann og var hann sáttur með þá útkomu.

„Einar fann sig ekki í upphafi leiks. Ég hef reynt að hafa þá báða klára frekar en að vera með aðal og varamarkmann sem mér finnst hjálpa okkur." 

Snorri Steinn var spenntur fyrir næsta andstæðing sem er ÍBV.

„Það verður gaman að fara til Eyja. Okkur hefur gengið illa á móti þeim í vetur sem við þurfum að skoða betur í undirbúningnum," sagði Snorri að lokum.

Dómgæslan í kvöld var afleidd frá upphafi til enda

Jónatan var afar ósáttur út í dómara leiksinsVísir/Hulda

Jónatan Magnússon þjálfari KA var afar svekktur með þá niðurstöðu að hans menn séu úr leik.

„Varnarleikurinn í einvíginu gerði það að verkum að Valur fór áfram. Síðan eru ákveðin atriði hér og þar sem hægt er að týna til hvers vegna Valur fór áfram í undanúrslitin," sagði Jónatan

Dómgæslan var umdeild í leik kvöldsins og var Jónatan Magnússon myrkur í máli um vinnubrögð dómara leiksins.

„Ég horfði á sömu dómara vera dæma leik FH-ÍBV í gær sem var ekki vel dæmdur leikur. Í þessum leik var línan sem dómararnir voru með algjört grín frá upphafi til enda."

„Þegar maður er að spila í úrslitakeppninni vill maður takast á og geta barist, en lína dómarana gerði það að verkum að það var alltaf einhver með brottvísun."

„Maður fær engar skýringar frá dómurunum, þeir svara aldrei fyrir eitt eða neitt. Dómgæslan fyrir norðan var allt öðruvísi en í þessum leik," sagði Jónatan afar ósáttur með dómara leiksins.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.