Körfubolti

Teitur Örlygsson kosinn í stjórn hjá Njarðvík og Gunnar Örlygs líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Teitur Örlygsson er kominn inn í stjórn hjá Njarðvíkingum.
Teitur Örlygsson er kominn inn í stjórn hjá Njarðvíkingum. SKJÁSKOT S2 SPORT

Bræðurnir Teitur og Gunnar Örlygssynir eru báðir nýir í stjórn Körfuknattleiksdeildar UMFN en ný stjórn var kosin á aðalfundi deildarinnar í gær.

Systir þeirra, Kristín Örlygsdóttir, er áfram formaður og Brenton Birmingham er áfram varaformaður. Kristín var árið 2019 fyrsta konan til að vera kosin formaður deildarinnar. Nú fær hún bræður sína með sér í að rífa upp körfuboltalið Njarðvíkinga eftir mjög erfiðan vetur.

Teitur Örlygsson er sigursælasti og stigahæsti leikmaður Njarðvíkur frá upphafi en hann varð á sínum tíma tíu sinnum Íslandsmeistari með liðinu. Teitur spilaði allan sinn feril með Njarðvík.

Þeir bræður urðu Íslandsmeistarar saman vorið 1991 og þá var það frægt þegar Teitur skallaði Gunnar fyrir eitt vítaskotið í lokaúrslitunum á móti Keflavík. Gunnar átti stórleik í oddaleiknum um titilinn og skoraði þar 27 stig.

Gunnar bróðir hans hefur áður komið að stjórnarstörfum fyrir Njarðvík og var um tíma formaður deildarinnar. Hann hefur hins vegar ekki verið í stjórninni undanfarin ár.

Það gekk mikið á hjá Njarðvík í vetur enda var liðið um tíma í bullandi fallhættu þó svo að Njarðvíkingar hafi bjargað sér með því að vinna þrjá síðustu leiki sína.

Dagskrárefni aukaaðalfundarins var stjórnarkjör og voru eftirtaldir kjörnir til stjórnarstarfa.

  • Stjórn Körfuknattleiksdeildar UMFN tímabilið 2021-2022
  • Formaður: Kristín Örlygsdóttir
  • Varaformaður: Brenton Birmingham
  • Gjaldkeri: Vala Rún Vilhjálmsdóttir
  • Meðstjórnandi: Agnar Mar Gunnarsson
  • Meðstjórnandi: Einar Jónsson
  • Meðstjórnandi: Gunnar Örlygsson
  • Meðstjórnandi: Sigrún Ragnarsdóttir
  • Meðstjórnandi: Teitur Örlygsson
  • Meðstjórnandi: Hreiðar Hreiðarsson
  • Varastjórn:
  • Emma Hanna Einarsdóttir
  • Geirný Geirsdóttir
  • Hafsteinn Sveinsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×