Heilsa

Hlaupa til styrktar fólki á landsbyggðinni í krabbameinsmeðferð

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Íbúar Hrunamannahrepps safna fyrir góðan málstað.
Íbúar Hrunamannahrepps safna fyrir góðan málstað. Getty/ Ilan Shacham

Sveitafélag Hrunamannahrepps ætlar að setja á laggirnar nýtt hlaup fyrir íbúa sveitafélagsins. Hlaupið í ár verður í tileinkað nýstofnaðri landsbyggðardeild Ljóssins.

Hugmyndasmiðir hlaupsins eru Arnfríður Jóhannsdóttir og Kolbrún Haraldsdóttir. Hlaupið, sem ber heitið Miðfellshlaupið fer fram í lok hreyfiviku UMFI 29. maí næstkomandi og er hluti af átakinu Heilsueflandi samfélag í Hrunamannahreppi sem er ætlað að hvetja íbúa sveitafélagsins til reglulegrar hreyfingar.

Hlaupið er tileinkað landsbyggðardeild Ljóssins sem ætluð er fólki sem býr á landsbyggðinni og er í krabbameinsmeðferð eða hefur lokið við krabbameinsmeðferð á undanförnum mánuðum. Auk þess að veita endurhæfingu í stafrænu formi er markmið með stofnun deildarinnar að auka samvinnu við þjónustu og fagaðila í heimabyggð, auka þannig þjónustu við krabbameinsgreinda í heimabyggð.

„Hugmyndin kviknaði í vetur með það að markmiði að hvetja fólk til að hreyfa sig meira og njóta alls hins góða sem hlýst af því. Samhliða því langaði okkur að leggja góðu málefni lið og fannst sjálfsagt að styðja við Ljósið enda forstöðukona Ljóssins, Erna Magnúsdóttir alin upp í Miðfellshverfinu. Við vildum leggja sérstaka áherslu á nýstofnaða landsbyggðardeild sem er virkilega þarft fyrir þá sem ekki geta sótt endurhæfingu í Reykjavík en þjónustan fer að miklu leyti fram rafrænt.“ segir Arnfríður Jóhannsdóttir.

Hugmyndasmiðir hlaupsins eru Arnfríður Jóhannsdóttir og Kolbrún Haraldsdóttir.Aðsent

Mismunandi vegalengdir fyrir góðan málstað

Vegalengdirnar sem hægt er að velja á milli eru 3 km, 5 km og 10 km og rennur allur ágóði skráningargjaldsins til Ljóssins, en í skráningarferlinu er einnig boðið upp á frjáls framlög til Ljóssins.

„Við erum virkilega þakklát sveitafélagi Hrunamannahrepps fyrir þetta fallega framtak og ég sjálf ótrúlega snortin að þau vilji styðja við Ljósið í þessu fyrsta Miðfellshlaupi. Við ætlum auðvitað að koma og hvetja fólk áfram og gera Ljósið sýnilegt,“ segir Erna Magnúsdóttir, forstöðukona Ljóssins.

Nánari upplýsingar um hlaupið er á Facebooksíðu viðburðarins hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.