Körfubolti

Ægir: Mjög ánægður með breytinguna frá síðasta leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson og félagar í Stjörnunni eru einum sigri frá sæti í undanúrslitunum.
Ægir Þór Steinarsson og félagar í Stjörnunni eru einum sigri frá sæti í undanúrslitunum. vísir/bára

Ægir Þór Steinarsson, leikstjórnandi Stjörnunnar, lék mjög vel þegar Garðbæingar unnu Grindvíkinga, 85-69, í dag.

„Við erum ánægðir með að ná að breyta þessum litlu hlutum sem skipta máli í körfubolta, að stíga út og vera aðeins þéttari fyrir,“ sagði Ægir við Vísi eftir leik. Hann skoraði átján stig, tók sex fráköst og gaf ellefu stoðsendingar.

„Ég er mjög ánægður með breytinguna frá síðasta leik. Núna fáum við tækifæri til að gera betur í Röstinni og ganga frá þessu þar.“

Stjörnumenn spiluðu sterka vörn í leiknum í dag og Grindvíkingum gekk illa að opna hana.

„Við vorum aðeins eftir á í síðasta leik sem gaf þeim þriggja stiga skot og við fráköstuðum ekki nógu vel. Það er alltaf munurinn í þessu; litlu atriðin,“ sagði Ægir.

Grindavík kom með áhlaup í upphafi 4. leikhluta en Stjarnan stóðst það án mikilla vandræða.

„Á þeim tíma fengum við stór skot frá Hlyni [Bæringssyni] og Alexander [Lindqvist]. Við náðum að svara því. Það er kannski ekki æskilegt að svara með þriggja stiga körfum en það dugði,“ sagði Ægir.

Stjarnan lék vel í fyrsta leiknum gegn Grindavík en datt svo niður í leik tvö. Ægir kveðst bjartsýnn á að Stjörnumenn nái núna að tengja saman tvo góða leiki.

„Ég vona það. Ég held að það væri mikilvægt fyrir okkur að sýna að við getum það. Og það er áskorun fyrir okkur að mæta einbeittir og framkvæma litlu atriðin,“ sagði Ægir að endingu.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×