Um­fjöllun og við­töl: Tinda­stóll - Kefla­vík 74 - 86 | Hörður Axel sá til þess að Kefla­vík komst í 2-0

Andri Már Eggertsson skrifar
Keflavík er komið í 2-0 forystu í einvíginu
Keflavík er komið í 2-0 forystu í einvíginu Vísir/Bára

Keflavík er komið í 2-0 í einvíginu á móti Tindastól. Leikurinn var jafn í seinni hálfleik en frábærar lokamínútur Keflavíkur ásamt stórleik Harðar Axels kláraði leikinn 74-86.

Leikurinn fór af stað líkt og við mátti búast. Keflavík tók frumkvæði leiksins og komust fljótlega 10 stigum yfir.

Fyrsti leikhluti einkenndist af góðum varnarleik Keflavík sem leikmenn Tindastóls réðu illa við. Þegar tæplega 9 mínútur voru liðnar af leiknum voru þeir aðeins búnir að gera þrjár körfur á gestina.

Nikolas Tomsick sem var lengi að koma sér í gang en þegar hann braut ísinn hjá sér komu nokkrar körfur í röð og skilaði hann 8 stigum í hálfleik sem er ekkert sérstakt en þó þremur stigum meira heldur en hann gerði í öllum síðasta leik.

Keflavík átti góðan kafla í öðrum leikhluta þar sem þeir gerðu 12 stig í röð og þá var staðan 18 - 33 fyrir deildarmeistarana.

Deane Williams var besti maður vallarins í fyrri hálfleik þar sem hann skilaði 20 stigum og tók 7 fráköst. Tilþrif leiksins komu að venju samkvæmt frá honum þegar hann hlóð í jarðskjálfta troð yfir Nikolas Tomsick í fyrri hálfleik.

Staðan í hálfleik var 30 - 41 Keflvíkingum í vil. Úrslitakeppnin er byrjunarliðs íþrótt sem sást vel í fyrri hálfleik þar sem aðeins ein karfa kom samanlagt bekknum en þar var Arnór Sverrisson leikmaður Keflavíkur á ferðinni undir lok fyrri hálfleiks.

Keflavík byrjaði seinni hálfleikinn betur og komst fljótlega 17 stigum yfir en það virtist kveikja risa stórt bál á Sauðárkróki þar sem leikmenn Tindastóls svöruðu því með rosalegum yfirburðum. 

Áhlaup Tindastóls endaði í 27 - 12 og leikurinn skyndilega orðin jafn 59 - 59 þegar 3. leikhluta var lokið. Antanas Udras sem var í sóttkví og missti af leiknum sem fram fór í Keflavík, hann var stórkostlegur í þessu áhlaupi Tindastóls og endaði á að skora 13 stig í seinni hálfleik.

Leikurinn var jafn 70 - 70 í fjórða leikhluta en þá sýndu Keflvíkingar styrk sinn og spiluðu talsvert betur sem endaði með að þeir unnu leikinn 74 - 86. 

Af hverju vann Keflavík?

Keflavík spilaði heilt yfir betur út allan leikinn. Þrátt fyrir að brenna 17 stiga forskot héldu þeir sjó og gáfu í þegar mest á reyndi undir lok leiks, þar fór leiðtogi Keflavíkur Hörður Axel Vilhjálmson fyrir sínum mönnum og sá til þess að sigurinn yrði í höfn. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hörður Axel Vilhjálmson var að spila sinn fyrsta leik í Síkinu á þessu tímabili og hann spilaði frábærlega. Hörður Axel setti niður sjö þriggja stiga skot í leiknum. Hörður skilaði 29 stigum, gaf 11 stoðsendingar og skilaði 36 framlagspunktum.

Deane Williams átti skínandi fyrri hálfleik fyrir Keflavík þar gerði hann 20 af 26 stigum sínum.

Antanas Udras varð lykilinn að því að þetta var jafn leikur í seinni hálfleik. Frábær kafli hjá honum í 3. leikhluta þar sem hann gerði 8 stig í röð fyrir Tindastól. Hann endaði leikinn með 13 stig. 

Hvað gekk illa?

Dominykas Milka átti ekki sinn besta dag. Milka spilaði í tæplega 22 mínútur án þess að skora stig en gerði ágætlega undir lok leiks þegar það kveiknaði loks á honum og skilaði 10 stigum á tæplega 10 mínútum. 

Pétur Rúnar Birgisson náði sér aldrei á strik í leiknum í kvöld. Pétur Rúnar lék tæplega 31 mínútu í kvöld og var stigalaus.

Keflavík voru komnir 17 stigum yfir í seinni hálfleik en slæmur kafli liðsins varð til þess að Stólarnir komust yfir um tíma. Keflavík gerði að meðaltali 93.2 stig í leik í deildinni en hafa nú mest gert 86 stig í úrslitakeppninni. 

Hvað gerist næst?

Þriðji leikurinn í þessu einvígi fer fram á laugardaginn klukkan 17:00 í Blue höllinni. Leikurinn verður sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.

Sterkt hjá okkur að koma til baka verandi ofan í 17 stiga holu

Baldur Þór er bjartsýnn á að hans menn geti unnið næsta leikVísir/Bára

Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Tindastóls var svekktur með að hafa tapað leiknum en það voru þó jákvæðir kaflar hjá hans liði.

„Við vorum komnir ofan í holu en það var mjög sterkt hjá okkur að komast aftur inn í leikinn og því mjög leiðinlegt að hafa ekki getað klárað þetta," sagði Baldur Þór

Antanas Udras átti góðan leik í kvöld, Baldur hafði orð á því fyrir leik að hann myndi vera í litlu hlutverki en þegar leið á leikinn tók hann mikið til sín

„Við spiluðum góða vörn á Milka í kvöld, Deane opnaði okkur mikið í fyrri hálfleik, ásamt því fór Hörður Axel ansi illa með okkur í kvöld."

Báðir leikirnir í þessari seríu hafa verið baráttu leikir og reiknar Baldur með hörku leik þegar liðin mættast næst í Keflavík

„Næsti leikur verður hörkuleikur, við ætlum að gera allt til að sækja sigurinn í Keflavík, það myndi setja þá undir mikla pressu að þurfa mæta aftur á Sauðárkrók sem er okkar markmið," sagði Baldur að lokum. 


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira