Körfubolti

„Að hafa hana í liðinu þínu þá ertu strax kominn með svindlkarl“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Domino´s Körfuboltakvöld kvenna heldur að Helena Sverrisdóttir hafi verið að spara sig fyrir úrslitakeppnina.
Domino´s Körfuboltakvöld kvenna heldur að Helena Sverrisdóttir hafi verið að spara sig fyrir úrslitakeppnina. Vísir/Bára

Pálína Gunnlaugsdóttir og sérfræðingar hennar fóru yfir einvígi Vals og Fjölnis í undanúrslitum Domino´s deildar kvenna en fyrsti leikurinn í einvíginu er í kvöld. Fjölniskonur gætu haft áhyggjur af því að Helena Sverrisdóttir hafi verið að spara sig fyrir úrslitakeppnina.

Domino´s Körfuboltakvöld fjallaði um einvígi liðanna í fyrst og fjórða sæti deildarinnar en með Pálínu voru þær Bryndís Guðmundsdóttir og Ólöf Helga Pálsdóttir.

Valskonur urðu deildarmeistarar en einn af fáum tapleikjum liðsins kom einmitt á móti nýliðunum úr Grafarvoginum.

„Helena hefur verið frekar róleg að undanförnu,“ sagði Pálína Gunnlaugsdóttir í upphafi umræðunnar.

„Hefur hún ekki bara verið að hlaða batteríin,“ skaut Ólöf Helga Pálsdóttir inn í.

„Er hún ekki að koma öðrum leikmönnum í gang,“ spurði Pálína í framhaldinu.

Klippa: Domino´s Körfuboltakvöld: Einvígi Vals og Fjölnis

„Hún er róleg en samt er hún að skila svo svakalegum tölum að maður trúir því ekki,“ sagði Bryndís Guðmundsdóttir.

„Að hafa hana í liðinu þínu þá ertu strax kominn með svindlkarl og það hefur bara verið þannig í mörg ár,“ sagði Ólöf Helga.

Hjá Fjölni er Ariel Hern búin að vera frábær á þessu tímabili og á mikinn þátt í því að nýliðarnir komust í úrslitakeppnina.

„Ég held að við lofsyngjum hana í hverjum einasta þætti. Það verður erfitt fyrir Dagbjörtu Dögg og allt Valsliðið að hægja á henni,“ sagði Pálína.

„Það fer mikil orka í það og þá getur X-faktorinn verið að hinar stígi upp. Hún er svolítið óstöðvandi samt og finnur bara leiðir,“ sagði Ólöf Helga.

Það má horfa á alla umfjöllunina um einvígi Vals og Fjölnis hér fyrir ofan. Pálína, Bryndís og Ólöf Helga ræddu þar frammistöðu liðanna í vetur og fóru yfir lykilmenn liðanna tveggja.

Leikur Hauka og Keflavíkur hefst klukkan 18.15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Strax á eftir verður bein útsending frá fyrsta leik Vals og Fjölnis og báðir leikirnir verða svo gerðir upp í Dominos Körfuboltakvöld kvenna strax á eftir seinni leiknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.